Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor, skrifar í tímaritið Vísbendingu í dag þar sem hann varar við endurkomu helstu persóna og leikenda hrunsins og segir að nú muni reyna á fjármálaeftirlitið. Kjarninn greinir frá.
Gylfi segir að ein helsta forsenda þess að bankakerfið hafi margfaldast að stærð á árunum fyrir hrun, hafi verið bókhaldsbrellur og misvísandi uppgjör og segir fyrirsjáanlegt að sömu aðilar muni snúa aftur í fjármálakerfið á Íslandi og ráða sömu endurskoðendur sem fyrr:
„…og reynir þá mikið á fjármálaeftirlit.“
Gylfi segir að mikið af því fé sem komið hafi verið undan fyrir hrun sé nú að skila sér til baka eftir að þrotabú bankanna hafi verið gerð upp:
„Líklegt er að a.m.k. einn öflugur banki verði í eigu þessara aðila innan ekki langs tíma ef það hefur ekki gerst nú þegar,“
segir Gylfi, en Arion banki, sem var að miklu leyti í eigu Kaupþings og vogunarsjóða um áramót, hefur gengið í gegnum miklar mannabreytingar stjórnenda undanfarið, sem og í hópi hluthafa. Orðrómur er uppi um að Arion banki sé að sameinast Kviku banka, hvers yfirstjórn hefur sterk tengsl við Kaupþing, en bankastjórinn Ármann Þorvaldsson, er til dæmis fyrrverandi forstjóri Kaupþings Singer & Friedlander.
Gylfi segir ekki öll kurl komin til grafar um ámælisverðan rekstur bankanna fyrir hrun, þar sem endurskoðendur léku stórt hlutverk. Sendir Gylfi endurskoðendum tóninn:
„Endurskoðendur gegndu lykilhlutverki í því að láta bókfært eigið fé margfaldast á fáum árum en hafa ekki sýnt neina iðrun í þeim efnum.“
Þá bætir Gylfi við:
„Ef þessir aðilar tengjast stjórnmálaflokkum þá mun reyna á sjálfstæði fjármálaeftirlits bæði í samskiptum við bankana og einnig við ríkisstjórn. Þá væri betra að peningastefnan væri ekki undir sama þaki.“
Gylfi minnist einnig á þær hættur sem fyrirhuguð sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins hefur í för með sér:
„Á síðustu tíu árum hefur farið fram stöðug vinna við að endurskipuleggja framkvæmd peningastefnu með breyttum áherslum og breyttri nýtingu stjórntækja. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins hefur tekist að kalla fram jákvæða þróun þar sem saman fara hagvöxtur, lág verðbólga, jákvæður viðskiptajöfnuður og batnandi staða gagnvart útlöndum og vaxandi kaupmáttur. Án efa hefur heppni ráðið einhverju en því verður ekki neitað að önnur beiting stjórntækja Seðlabankans árin 2009-2019 hefur skilað stórlega bættum árangri. Kannski gengur það að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil án þess að hagkerfið fari í gegnum dýfur með reglubundnum hætti, verðbólguskot og skertan kaupmátt!
En af hverju þarf þá að umbylta stjórnkerfinu á grundvelli tillagna sem urðu til fyrir misskilning með breytingum sem stefna þessum árangri í tvísýnu? Er ekki betra að taka fleiri og smærri skref, halda í það sem gott er og bæta smám saman þegar við erum alveg viss um að næsta skref sé til bóta? Og ekki gera ráð fyrir að embættismenn og stjórnmálamenn hugsi alltaf einungis um þjóðarhag en ekki eigin hagsmuni og sína pólitísku stöðu.“