Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir við mbl.is í dag að hann hafi ekki fulla yfirsýn yfir afleiðingar úrskurðar héraðsdóms Reykjaness í máli Isavia og ALC, en hann telji þó að stjórn Isavia hafi fært ágætis rök fyrir því hvernig staðið var að málum gagnvart WOW air og þeirri skuld sem safnaðist, sem nam rúmlega tveimur milljörðum króna.
Í gær komst Héraðsdómur Reykjaness að þeirri niðurstöðu að Isavia hafi ekki verið heimilt að krefja bandaríska flugleigufélagið ALC um andvirði heildarskuldar WOW air, heldur aðeins þess hluta skuldar viðkomandi flugvélar sem Isavia samdi um að kyrrsetja sem veð, eða alls 87 milljóna króna.
„Það virðist vera að það sé einhverri túlkun háð, hver verða næstu skref. Báðir aðilar virðast vera að velta því fyrir sér fyrir sitt leyti hvað gerist næst, þannig að ég held að við verðum aðeins að bíða og sjá hvernig úr þessu spilast, til þess að komast að niðurstöðu um það hvernig maður á að meta stöðuna,“
segir Bjarni við mbl.is og segist hafa verið meðvitaður um skuldastöðuna í lengri tíma.
Hvort eðlilegt hafi verið fyrir Isavia að safna slíkri skuld hjá félagi sem barðist í bökkum, sagði Bjarni:
„Mér finnst að stjórn Isavia hafi fært ágætisrök fyrir því hvernig á málinu var haldið. Þetta er viðskiptaleg ákvörðun sem menn standa frammi fyrir, hvernig eigi að taka á því þegar að viðskiptamenn félagsins standa ekki í skilum og í þessu tilviki var þessi leið farin. Við þekkjum dæmi um það í sögunni að það hafi verið gripið til tryggingaráðstafana gagnvart félögum sem hafa lent í vanskilum. Það er sömuleiðis gert ráð fyrir því í lögum að menn geti gripið til slíkra ráðstafana og um framkvæmd þess var deilt í þessum úrskurði þannig að já, mér finnst að stjórnin hafi fært góð rök fyrir sinni afstöðu og því hvernig tekið var á þessu máli.“
Bjarni segir það einnig hafa fylgt sögunni þegar stjórnin útskýrði afstöðu sína, að Isavia gæti kyrrsett eina vél WOW air, sem tryggingu fyrir skuldinni:
„Jú jú, eins og gert er ráð fyrir í lögunum.“
Þá bendir blaðamaður Bjarna á að þau lög virðast ekki halda, nema upp að vissu marki, samanber dóminn í gær:
„Það er það sem að við bíðum endanlegrar niðurstöðu með. Mér sýnist, meðal annars af fréttum í gær, að það sé einhverjum vafa undirorpið hvernig úr því muni spilast. En að sjálfsögðu, ef að lög eru eitthvað óskýr um þetta efni kallar það á viðbrögð og það getur verið viss skellur, en á móti kemur, til dæmi, að óbeinar tekjur af rekstri flugfélagsins WOW frá því að það lenti í vanskilum nema gríðarlega háum fjárhæðum sem er sjálfsagt að taka með í reikninginn, vilji menn komast að niðurstöðu með það hvaða áhrif ákvarðanataka stjórnar Isavia hefur haft heilt yfir.“
Bjarni heldur því einnig fram að ríkið hafi með engum hætti rétt WOW air hjálparhönd, þó svo að Isavia ohf., sem strangt til tekið er ríkisfyrirtæki, hafi leyft slíka skuldasöfnun, sem nefnd var „yfirdráttarlán“ í stjórnarsamþykkt Isavia, líkt og um bankastofnun/lánastofnun væri að ræða:
„Það er engin ákvörðun sem er tekin hjá stjórn Isavia að viðskiptamenn þeirra lendi í vanskilum, heldur er það einhver staðreynd sem menn standa frammi fyrir, það er ekki ákvörðun um lánveitingu eða ríkisstyrk, heldur er það viðskiptaleg staða sem skapast við þetta hlutafélag. Félagið stendur frammi fyrir því að viðskiptamenn þess geti ekki staðið í skilum og þá þarf að taka viðskiptalega ákvörðun um það, hvernig eigi að bregðast við.“
Sjá einnig: Isavia leyfði skuld WOW að magnast – Vildu ekki stuðla að gjaldþroti félagsins