fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Skýrslan um neyðarlánið fær falleinkunn – „Hroðvirknisleg vinnubrögð“ – „Skandall“ – „Þunnildi sem engu bætir við“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 29. maí 2019 10:02

Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir rúmlega fjögur ár var skýrsla Seðlabanka Íslands um veitingu þrautavaralánsins til Kaupþings árið 2008 loksins birt í vikunni. Ekki er mikið um nýjar upplýsingar í skýrslunni, en staðfest er að starfsreglum hafi ekki verið fylgt við veitingu lánsins, sem nam 500 milljónum evra. Ekki er ljóst hvert sú upphæð fór, en ljóst er að ekki muni endurheimtast meira af láninu en sem nemur 260 milljónum evra.

Tapið hljóðar því upp á 33.2 milljarða króna og sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri, að líklega hefði ekki átt að veita lánið, en tók fram að það væri gott að vera vitur eftir á:

„Eftir á að hyggja hefði verið betra að veita ekki lánið. Það er hins vegar ekki þar með sagt að þetta hafi verið rangt sjónarmið miðað við aðstæðurnar og þær upplýsingar sem þá lágu fyrir. Allt orkar tvímælis þá gjört er og ekki er alltaf viðeigandi að nota einungis mælistikur upplýsinga síðari tíma þegar einstakar ákvarðanir eru metnar.“

Hroðvirknisleg vinnubrögð

Í Speglinum á RÚV í gær kom fram að engin samtímagögn séu til um neyðarlánið. Engin gögn um lánsfjárhæðina, lánstímann, lánakjörin eða í hvað upphæðin átti að fara. Þá væri óljóst hvort slík gögn voru nokkurn tíma til yfir höfuð og virtist sem að ákvarðanir um það hafi verið teknar í samtölum utan Seðlabankans.

Sigrún Davíðsdóttir sagði skýrsluna stefnulausa og undraðist að Seðlabankinn rannsakaði sjálfan sig:

„Til dæmis var ekkert athugað um afdrif lánsins fyrr en forsætisráðherra bað um það í nóvember í fyrra. Rangar dagsetningar sýna hroðvirknisleg vinnubrögð, líka undarlegt að skýrslan virðist unnin í hjáverkum, ein skýringin á því af hverju það tók heil 4 ár að skrifa hana. Skýrsla seðlabankans skilur eftir spurningar, þá líka hvort viturlegt sé að láta stofnun skrifa skýrslu um eigin gerðir.“

Skandall gagnvart Alþingi og almenningi

Hermann Guðmundsson, forstjóri og einn eigenda Kemi og fyrrverandi forstjóri N1, gefur skýrslunni falleinkunn:

„Hún er skrýtin þessi skýrsla Seðlabankans um neyðarlán til Kaupþings. Að hún skuli hafa tekið 4 ár er eitt og sér skandall gagnvart Alþingi og almenningi. Eftir lesturinn er ljóst að innihaldið hefur ekki tekið mikið meira en 2-3 mánuði að draga saman enda er nánast allt sem þarna kemur fram endursögn eða endurritun á því sem áður hefur komið fram. Síðan fer allt niðurlag skýrslunnar í að útskýra allan þann vanda sem Danska bankakerfið átti við að glíma, líklega til að útskýra af hverju endurheimtur voru mun minni en fyrstu vonir stóðu til. / Ekki þarf þá lengur að giska á að peningum hafi verið stolið eða komið undan. Skýrslan er þunnildi sem engu bætir við söguna af umræddu neyðarláni.“

Vafasamt tilboð

Þá segir Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður, að í skýrsluna vanti ýmislegt, til dæmis að áhrifamiklir aðilar , ekki síst verkalýðshreyfingin, hafi átt mikið undir að Kaupþingi væri bjargað, til dæmis vegna hagsmuna lífeyrissjóðanna.

Þá segir Jón:

„Það sem kemur hins vegar ekki fram í skýrslunni af skiljanlegum ástæðum er umfjöllun um það með hvaða hætti var staðið að því að hámarka verð þeirrar tryggingar sem sett var að veði fyrir veitingu neyðarlánsins. Ljóst er að hefði tryggingin verið fullnægjandi þá hefði ekki orðið neitt tjón. Ég skrifaði ítarlega grein fyrir nokkrum árum í Morgunblaðið þar sem ég rakti að tilboð lá fyrir í það sem sett var að veði, sem hefði leitt til fullrar endurgreiðslu neyðarlánsins, en Már Seðlabankastjóri kaus að taka öðru tilboði, sem var vafasamara og gat eingöngu þjónað hagsmunum kröfuhafa Kaupþings banka en ekki þjóðarinnar. Hvernig skyldi standa á því að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri vill ekki gera grein fyrir þessum þætti málsins þó mikilvægastur sé?“

Staksteinar Morgunblaðsins taka upp skrif Jóns í dag, en ekkert hefur enn heyrst frá Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi seðlabankastjóra, um útgáfu skýrslunnar.

Líklegt má telja að um hana verði fjallað í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“