Alls 200 milljónir voru settar inn í rekstur Árvakurs, sem rekur Morgunblaðið, þann 21. janúar síðastliðinn þegar hlutafé í Þórsmörk ehf. var aukið, en Þórsmörk er eigandi Árvakurs.
Voru það Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja sem lögðu til 160 milljónir fjárins, samkvæmt eigendalista á vef Fjölmiðlanefndar sem uppfærður var í gær og Kjarninn greinir frá.
Í lögum um fjölmiðla segir að tilkynna beri Fjölmiðlanefnd um allar eigendabreytingar innan tveggja daga frá því að kaupsamningur sé gerður.
Hinsvegar höfðu upplýsingar um eignarhald Þórsmerkur ekki verið uppfærðar frá 13. september 2017, þar til í gær, en hlutafjáraukningin í Árvakri var 21. janúar síðastliðinn. Skráningin tók því 127 daga og virðist sem ekki hafi verið farið að lögum um skráningu á eignarhaldi, þar sem það má ekki skrá nýtt hlutfé fyrr en það hefur verið greitt.
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS, greindi frá því í viðtali við Morgunblaðið í apríl að KS ætti um fimmtungshlut í í Þórsmörk, en skráningin á heimasíðu fjölmiðlanefndar tiltók að KS ætti 15.84 prósenta hlut í Þórsmörk, í gegnum Íslenskar sjávarafurðir.
22. gr. Tilkynningarskylda um eigendaskipti að fjölmiðlaveitu.
Við sölu á hlut í fjölmiðlaveitu bera seljandi og kaupandi ábyrgð á því að tilkynning um söluna sé send fjölmiðlanefnd. Tilkynning um söluna skal hafa borist fjölmiðlanefnd innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings. Þetta ákvæði gildir þó ekki hafi stjórn hlutafélags gert samning við verðbréfamiðstöð skv. 3. mgr.
Við hlutafjáraukninguna minnkaði hlutur fimm skráðra hluthafa, sem ekki tóku þátt í henni. Þar á meðal er Ramses II ehf. sem er í eigu Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem áður átti 22.87 prósent en á nú 20.05 prósent.
Eyþór keypti hlut sinn í Árvakri með kúluláni frá félagi í eigu Samherja, að upphæð 325 milljónir, líkt og Stundin hefur greint frá. Segir Stundin ósamræmi vera í skýringum Samherja og Eyþórs og að annarhvor aðilinn segi ósatt. Hefur Eyþór ekki viljað upplýsa um hvernig hann hafi fjármagnað kaupin og borið því við að um trúnaðarmál sé að ræða.
Uppfært eignarhald Þórsmerkur er eftirfarandi: