Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, og einn helsti talsmaður innleiðingu þriðja orkupakkans, hnýtir í Miðflokkinn í pistli á heimasíðu sinni í dag sem ber heitið Miðflokksmönnum fjarstýrt frá Noregi. Vísar Björn í norskar fréttir um málþóf Miðflokksins vegna þriðja orkupakkans:
„Eðlilegt er að Norðmenn fylgist af nokkrum áhuga með málþófinu sem miðflokksmenn hafa stofnað til hér á landi. Allar tafir á að íslensk stjórnvöld standi við EES-skuldbindingar sínar í þessu máli valda Norðmönnum erfiðleikum. Okkur er Acer þó ekki skylt eins og Norðmönnum sem selja orku um sæstreng.“
Þá setur Björn Klausturmálið í samhengi við orkupakkann:
„Miðflokksmenn drógu alþingi niður í svaðið með framgöngu sinni á Klausturbar 20. nóvember 2018. Nokkrir úr hópi þeirra sáu sér þá þann kost vænstan að gera hlé á þingsetu sinni á meðan hneykslisalda fór um samfélagið. Líta verður á atlöguna að heilbrigðri skynsemi á alþingi núna sem tilraun miðflokksmanna til sjálfstyrkingar eftir skammdegisáfallið. Kjarni málflutnings þeirra er þessi: Miðflokksmenn eru betri og meiri Íslendingar en allir aðrir. Þetta segja þeir sem dansa eftir norskri pípu hver við annan í þingsalnum nótt eftir nótt.“
Þá segir Björn um Sigmund Davíð:
„Þegar Sigmundur Davíð fór í framboð vorið 2013 sem verðandi forsætisráðherra fór hann í viðtal á Þingvöllum við Fréttablaðið. Blaðamaðurinn var með fána með sér. Var hann dreginn að húni á Lögbergi og Sigmundur Davíð stillti sér upp fyrir forsíðumyndina. Þarna birtist sama dómgreindarleysið og í þingsalnum nú, að Sigmundur Davíð sé meiri Íslendingur en aðrir.“