Þau Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafa vísað Klausturmálinu til Siðanefndar Alþingis. Kjarninn greinir frá.
Steinunn og Haraldur vísa málinu frá forsætisnefnd, hvar þau voru kjörin tímabundnir varaforsetar í janúar, þar sem aðrir varaforsetar voru vanhæfir til að fjalla um málið, þar sem þeir höfðu tjáð sig um það í fjölmiðlum áður en nefndinni gafst færi á að fjalla um málið.
Siðanefnd skilaði áliti sínu um Klausturmálið til forsætisnefndar í lok mars þar sem það var talið falla undir gildissvið siðareglna þingmanna, en þar segir til dæmis:
„Alþingismenn eru opinberar persónur, sú háttsemi sem um ræðir átti sér stað á opinberum vettvangi og tengist málum sem hafa verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Þar sem hátternið varðar almenning verður ekki litið á þau atvik sem hér um ræðir sem einkasamtal.“
Siðanefndina skipa þau Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild HÍ, og Salvör Nordal, sérfræðingur við Siðfræðistofnun HÍ.
Nefndin var skipuð árið 2017 og eru hún skipuð til fimm ára.