Ásmundur Friðriksson hefur ekki viljað gefa upp hvort hann hyggist styðja þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, varðandi innleiðingu þriðja orkupakkans. Að hann vilji ekki opinberlega styðja málið gefur til kynna að hann muni ekki styðja málið og í besta falli sitja hjá við afgreiðslu þess.
Sjá nánar: Ásmundur vill ekki gefa upp afstöðu sína:„Hef ekkert um málið að segja“
Innan umræðuhóps samtakanna Orkunnar okkar er búið að kortleggja þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem sagðir eru á báðum áttum varðandi orkupakkann.
Þeir eru: Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra og Haraldur Benediktsson.
Er Ásmundur sá eini sem merktur er sem staðfestur andstæðingur málsins innan þingflokksins.
Miðað við skrif Njáls Trausta um orkupakkann undanfarið má þó telja að hann sé honum fylgjandi.
Fyrir áramót höfðu minnst sex þingmenn flokksins lýst yfir efasemdum sínum varðandi þriðja orkupakkann. Það voru þeir Páll Magnússon, Brynjar Níelsson, Óli Björn Kárason, Jón Gunnarsson, og Njáll Trausti Friðbertsson en auk þeirra hafði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins sagt að orkumál Íslendinga ættu ekki að heyra undir EES-samninginn og var gagnrýninn á orkupakkann.
Allir þessir þingmenn virðast hafa snúist á liðnum vikum í afstöðu sinni og mæla nú fyrir innleiðingu orkupakkans.