„Sæl, forsætisnefnd Alþingis. Lesið og skammist ykkar, lesið svo aftur og grípið boltann frá fjölmiðlakonunni sem þingmaður áreitti,“ skrifar Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, en honum mislíkar mjög að forsætisnefnd Alþingis skuli ekkert ætla að hafast í máli þingmannsins Ágústs Ólafs Ágústsson sem sneri aftur á þing fyrir skömmu eftir leyfi sem hófst í desember. Ágúst Ólafur hefur játað á sig óviðegandi framkomu í garð blaðmannsins Báru Huldu Beck, er þau ræddu saman á ritstjórn Kjarnans að næturþeli síðastliðið sumar, eftir að þau höfðu hist í miðbæ Reykjavík.
Ágúst Ólafur reyndi ítrekað að kyssa Báru Huld og jós yfir hana svívirðingum er hún vildi ekki þýðast hann. Bára Huld kvartaði yfir honum til Samfylkingarinnar og Ágúst Ólafur ákvað að taka sér leyfi frá þingstörfum. Hann baðst innilega afsökunar á framkomu sinni og fór í áfengismeðferð.
Bára Huld Beck hefur sjálf ritað grein í Kjarnann um forsætisnefnd Alþingis þar sem hún tekur meðal annars fyrir þetta mál. Jón Þór hvetur forsætisnefnd til að lesa greinina og skammast sín. Í greininni segir Bára Huld meðal annars:
Forsætisnefnd hafði einnig til meðferðar erindi um brot Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, á siðareglum fyrir alþingismenn vegna kynferðislegs áreiti hans. Á mánudaginn síðastliðinn birti forsætisnefnd niðurstöðu sína en þar kemur fram að fyrirliggjandi erindi gefi ekki tilefni til frekari athugunar af hennar hálfu.
Einn nefndarmaður forsætisnefndarinnar, Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata, gagnrýndi aftur á móti þá ákvörðun forsætisnefndar að túlka meinta kynferðislega áreitni ekki sem brot á siðareglum og jafnframt bóka að erindið gefi ekki tilefni til frekari athugunar.
„Slík málsmeðferð vekur ekki traust á að forsætisnefnd ætli að virða vilja Alþingis varðandi kynferðislega áreitni sem eru skelfileg skilaboð að senda konum og þeim sem hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni,“ segir Jón Þór í bókun sinni við afgreiðslu nefndarinnar á málinu.
Þetta er annað dæmi um ákvörðun sem vert er að staldra við, þ.e. að þingmaður hafi viðurkennt að hafa áreitt aðra manneskju kynferðislega og fengið áminningu frá flokki sínum en að forsætisnefnd hafi ekki talið tilefni til frekari athugunar á málinu.
Undir grein Báru Huldar stendur þessi athugasemd:
Þess ber að geta að höfundur er blaðamaðurinn sem Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, áreitti kynferðislega en málið fór fyrir forsætisnefnd eins og fram kemur í greininni.