„Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kom vissulega á áðurnefndan fund en ekki er hægt að segja að hún hafi setið fundinn né átt samtal við fundargesti. Fundurinn hófst seinna en auglýst var þar sem beðið var eftir Svandísi, hún ávarpaði fundinn stuttlega á meðan ljósmyndari hennar tók myndir og fór svo strax af fundi. Einn fundargesta reyndi að spyrja hana spurningar en Svandís hafði ekki tíma til að svara neinu né hlusta á fundinn heldur fór strax út að loknu eigin ávarpi og myndatöku.“
Þetta er meðal þess sem segir í tilkynningu frá Hugarafli, sem er svar við frétt Heilbrigðisráðuneytisins sem birt var á vef Stjórnarráðsins 16. maí „Ráðherra hitti notendur geðheilbrigðisþjónustu á samráðsfundi“ og svo á vef mbl.is 16. maí „Notendur ráðnir inn í geðheilsuteymi“.
„Við í Hugarafli viljum leiðrétta þó nokkrar staðhæfingar sem haldið var fram í ofangreindum fréttum Heilbrigðisráðuneytisins,“
segir í tilkynningunni og einnig:
„Samráðsfundir heilbrigðisráðuneytisins við notendur geðheilbrigðiskerfisins hafa verið sýndarmennska hingað til. Við neitum að taka þátt í blekkingunni. Hugarafl hefur sent tillögur til úrbóta til ráðuneytisins í von um að raunverulegir fundir með raunverulegu samstarfi við notendur eigi sér stað. Við viljum vinna saman að bættu geðheilbrigðiskerfi og við viljum tryggja það að rödd notenda heyrist og sé virt.“
Allt stefndi í að starfsemi Hugarafls yrði lögð niður á síðasta ári þegar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ákvað að hætta samstarfi Hugarafls við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá kom Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra samtökunum til bjargar, með milligöngu Vinnumálastofnunar og gerði nýjan samning við Hugarafl til tveggja ára um að sinna starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga með geðraskanir sem þurfa öflugt utanumhald og eftirfylgd.
Hugarafl hugsaði Svandísi eflaust þegjandi þörfina meðan á þessu stóð, en lesa má nánar um það hér að neðan.
Sjá nánar: Hugarafl fékk nýjan samning hjá Ásmundi eftir höfnun frá Svandísi
Sjá nánar: Inga Sæland um Svandísi Svavars:„Ætlar að eyðileggja Hugarafl með öllu“
Sjá nánar: Neyðarkall Hugarafls til ríkisstjórnarinnar
Hugarafl tínir til ýmis atriði þar sem þau telja hafa betur mátt fara:
„Samráðsfundur notenda“
„Heilbrigðisráðuneytið hefur í tvígang boðað til „samráðsfundar notenda við ráðuneytið“. Raunverulegur samráðsfundur notenda hefur hinsvegar ekki farið fram þar sem meirihluti fundargesta voru forstöðufólk þjónustuúrræða, framkvæmdastjórar og fagmenntaðir einstaklingar sem hafa ekki lýst yfir persónulegri reynslu að okkur vitandi. Það verður að virða tilgang þessa fundar. Hann ætti eingöngu að vera með notendum og svo fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins. Annars erum við ekki að framfylgja stefnumótun Sameinuðu þjóðanna. Annars er þetta eingöngu að nafninu til og engin innistæða fyrir raunverulegu samráði við notendur.
–> Samráðsfundur notenda ætti að vera einungis með notendum, þ.e. einstaklingum með persónulega reynslu af íslenska geðheilbrigðiskerfinu.“
Og einnig:
„Ráðning notendafulltrúa í geðheilsuteymin
Í fréttunum kemur fram að fulltrúar geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafi setið fundinn og sagt frá ráðningu notendafulltrúa inn í teymin. Í fréttunum hljómar eins og þetta sé mikið nýnæmi, byggi á fordæmum frá nágrannaþjóðum og hafi reynst vel. Við höfum fjölda athugasemda við þetta.
Fyrir hönd Hugarafls og stjórnar Hugarafls,
Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls.
Fanney Björk Ingólfsdóttir.
Sigurborg Sveinsdóttir.
Svava Arnardóttir.“