fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Fangar mótmæla skipun Skúla: „Umdeildur maður og ósagt skal látið um hans fortíð“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 13. maí 2019 10:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Stjórn Afstöðu, hagsmunafélags fanga og áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, harmar að dómsmálaráðherra þáverandi, sem þurfti síðar að víkja vegna embættisfærslu sem dæmd var óhæf, skyldi skipa Skúla Þór Gunnsteinsson formann nefndar um eftirlit með störfum lögreglu.“

Svo hefst tilkynning frá Afstöðu í dag þar sem skipun Skúla Þórs Gunnsteinssonar er gagnrýnd, en Fréttablaðið greindi frá því í dag að háttsemi Skúla hefði tvisvar orðið tilefni til fjölmiðlaumfjöllunar, vegna óviðeigandi ummæla sem hann lét falla í tölvupósti, sem sendur var úr netfangi hans í innanríkisráðuneytinu. Hið fyrra vegna konu sem sleit sambúðum við vin Skúla, og hið seinna vegna Afstöðu og starfsmanna umboðsmanns Alþingis, sem hann vildi „tuska til“.

Var Skúli færður til í starfi árið 2016.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, vissi ekki um skipun Skúla þegar Fréttablaðið ræddi við hann:

Afstaða og ráðuneyti dómsmála áttu mjög hreinskilið og afdráttarlaust samtal um Skúla Þór Gunnsteinsson eftir hans skelfilega særandi orð um talsmenn fanga. Í því samtali sannfærði ráðuneytisstjórinn okkur í Afstöðu um að Skúli fengi ekki að starfa við málaflokkinn að nýju.“

Umdeildur maður

Í tilkynningu frá Afstöðu segir að Skúli sé umdeildur og að skipan hans hafi verið þvert á loforð stjórnvalda:

„Afstaða sinnir því verki sem allir aðrir frábiðja sér, hagsmunagæslu fyrir þá sem minnst mega sín. Í því mengi eru samfélagsþegnar sem á einhverjum tímapunkti þurfa að eiga í samtali við lögreglulið landsins, mögulega á sínum versta tíma í lífinu. Í þessu mengi geta verið ágætis Íslendingar sem hafa þurft að skilja við samfélagið og gangast undir reglur Fangelsismálastofnunar. Og því miður hefur íslenskum stjórnvöldum ekki tekist að lækka endurkomutíðni í íslenskum fangelsum.

Skúli Þór Gunnsteinsson er umdeildur maður og ósagt skal látið um hans fortíð hvað varðar fjölskyldudeilur og fjárhagslegt þrot. Afstaða er félag sem réttir ávallt fram sáttarhönd og þar er fyrirgefningin ríkjandi. Skúla var fyrirgefið eftir gríðarlega meiðandi ummæli hans í garð fanga og reyndar einnig í garð starfsmanna umboðsmanns Alþingis. Honum var samt fyrirgefið vegna þess að ráðuneyti dómsmála færði hann til í starfi og sannfærði okkur um að hann hefði ekkert með málefni fanga og almannaöryggis að gera aftur.“

Hyggjast kvarta með formlegum hætti

Í tilkynningu segir að óskað  verði eftir því að Alþingi taki málið fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd:

„Hvað er handtekinn maður? Hvert leitar handtekinn maður ef hann telur að lögregla hafi haft rangt við? Þá tekur við maður sem þreyttur var orðinn á kvörtunum fanga og ætlaði að hrista umboðsmann Alþingis þannig að hann væri ekki með vesen. Afstaða mun senda kvörtun til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og óska eftir því að málið verði tekið fyrir. Hafni nefndin því þá mun Afstaða þrýsta á þá þingmenn sem raunverulega láta sig fangelsismál og réttaröryggi skipta, að taka málið fyrir.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt