fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Formaður BSRB: „Ég veit ekki með ykkur en ég er komin með algerlega nóg“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 1. maí 2019 15:00

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, hélt ræðu á Ingólfstorgi  í dag á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. Ræðan er birt í heild sinni hér að neðan:

„Kæru félagar – Til hamingju með daginn! Það er mér mikill heiður að standa hér í dag, með ykkur öllum. Við stöndum hér í dag – saman – til að berjast fyrir bættum kjörum og bættum hag, og til að berjast gegn misrétti og óréttlæti, á vinnumarkaði sem og í einkalífi. Við stöndum saman hér í dag líkt og við launafólk höfum staðið saman í heila öld. Við stöndum hér til að krefjast breytinga á samfélaginu okkar.

Við vitum öll hversu mikilvæg samstaðan er launafólki. Án hennar hefðum við ekki þau réttindi sem við teljum sjálfsögð í dag. Í dag þykir okkur sjálfsagt að eiga samningsrétt og veikindarétt. Okkur þykir eðlilegt að fara í fæðingarorlof, eiga launað orlof og margt fleira.

Staðreyndin er sú að það hefur í mörgum tilvikum kostað miklar fórnir og oft hörð átök að tryggja launafólki þessi réttindi. Þó við höfum náð miklum árangri í starfi verkalýðshreyfingarinnar er líka margt óunnið. Þessi barátta fer ekki bara fram við samningaborðið eða á fundum með stjórnvöldum. Við tökum öll þátt. Við tökum þátt í baráttunni fyrir bættum lífskjörum með því að vera í stéttarfélögum og taka þátt í starfsemi þeirra.

Við tökum þátt með því að taka að okkur að vera trúnaðarmenn á vinnustöðum. Við tökum þátt með því að kjósa um samninga og forystufólk okkar félaga. Og við getum líka tekið þátt með því að benda á það sem fer úrskeiðis á vinnustaðnum. Þeir sem reyna óréttlæti eða upplifa vandamál á eigin skinni geta vakið athygli á því. Þeir sem verða vitni að vandamálum geta líka bent á þau. Þannig getum við lagt okkar af mörkum til að aðrir lendi ekki í því sama. Það gerum við með því að hafa samband við okkar stéttarfélag sem getur gripið til aðgerða. Saman breytum við samfélaginu!

Vinnutími hefur verið eitt af aðalbaráttumálum verkalýðshreyfingarinnar frá upphafi. Við höfum náð árangri í baráttunni en í seinni tíð hefur okkur miðað sérstaklega hægt. Afraksturinn af því er að flestir búa við sama vinnutíma og fyrir tæpri hálfri öld. Á sama tíma hafa kröfurnar til launafólks breyst. Við búum ekki lengur í sama samfélagi og foreldrar okkar, afar okkar og ömmur.

Við þekkjum flest afleiðingarnar af þessum aukna hraða og álagi í samfélaginu. Veikindi tengd kulnun og streitu hafa aukist verulega. Þetta hefur ekki bara áhrif á þá sem fyrir því verða heldur hefur þetta einnig kostnað í för með sér fyrir samfélagið allt.

BSRB hefur undanfarin ár staðið fyrir tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar með Reykjavíkurborg og ríkinu. Með því að stytta vinnuvikuna í 36 stundir tókst að draga úr streitueinkennum og einkennum kulnunar. Það dró einnig úr fjarveru starfsmanna vegna veikinda. Á samanburðarvinnustöðum þar sem vinnuvikan var óbreytt hélt þróunin hins vegar áfram í sömu átt og áður, og starfsfólki reyndist sífellt erfiðara að samþætta fjölskyldulífið og vinnuna.

Nú hafa félagsmenn í stærstu verkalýðsfélögunum á almenna markaðinum samþykkt Lífskjarasamningana. Þar er að finna fjölmörg atriði sem geta bætt lífskjör launafólks og því hljótum við öll að fagna. Eitt af því sem þar má finna eru ákvæði um styttingu vinnuvikunnar. Þrátt fyrir að þessir samningar hafi verið samþykktir eru enn stórir hópar með lausa samninga. Þeirra á meðal eru nær allir opinberir starfsmenn. Það er fólkið sem sinnir mikilvægri almannaþjónustu. Umönnunarstörfunum, kennslunni, löggæslunni og öllum hinum störfunum sem samfélagið getur ekki verið án. Þetta eru störfin þar sem álagið og einkenni kulnunar eru sífellt að aukast. Þessir hópar gera þá augljósu kröfu að við semjum um styttingu vinnuvikunnar í þeim kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi og það ætlum við að gera.

Yfirskrift dagsins í dag er „Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla“. Jöfnuður hefur verið lykilstef í baráttu verkalýðshreyfingarinnar frá upphafi. Baráttan fyrir samfélagi þar sem þar sem allir eiga sinn sess og njóta virðingar. Við höfum ekki alltaf haft erindi sem erfiði í þeim efnum. Nú er hins vegar komið að ögurstundu – ekki bara hér á Íslandi heldur alls staðar í heiminum – um hvort við berum gæfu til að tryggja að enginn gleymist í lífsgæðakapphlaupinu.

Áskorunin framundan er að allir rói í sömu átt að félagslegum stöðugleika. Það er ljóst að launafólk mun ekki eitt axla þá ábyrgð á meðan aðrir skara eld að eigin köku. Stjórnvöld þurfa að bæta landsmönnum upp þær skerðingar sem áttu sér stað í velferðarkerfinu eftir hrun. Umræða um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu heldur áfram þrátt fyrir að það sé löngu ljóst að það er þvert á vilja þjóðarinnar. Almannaþjónustan á að vera rekin á þeim grunni að einstaklingar greiði inn eftir efnum og taki út eftir þörfum. Við sættum okkur ekki við samfélag þar sem hinir efna meiru geta keypt sér forgang á nauðsynlega þjónustu. Það er óásættanlegt að fjármunir sem verða til við þjónustu við sjúklinga renni í vasa einkaaðila með arðgreiðslum. Einkarekstur dregur ekki úr kostnaði hins opinbera.

Stjórnvöld verða að efla heilbrigðiskerfið á félagslegum grunni en ekki á grundvelli hagnaðarsjónarmiða þeirra sem vilja standa í einkarekstri. Forsenda þess er sú að starfsumhverfið sé gott svo starfsfólkið geti veitt góða þjónustu. Við eigum frábært starfsfólk í heilbrigðiskerfinu og við þurfum að hlúa að þeim svo þau geti hlúið að okkur. Yfirskriftin í dag, „Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla“ minnir okkur líka á að þrátt fyrir að fyrsta ákvæði um launajafnrétti hafi verið bundið í lög fyrir 65 árum hefur okkur enn ekki tekist að útrýma misrétti á vinnumarkaði.

Ég veit ekki með ykkur en ég er komin með algerlega nóg. Við eigum að útrýma launamuni kynjanna og tryggja jafnrétti á vinnumarkaði í eitt skipti fyrir öll. Ekki bráðum. Ekki á næstunni. Núna! Við verðum að skapa samfélag þar sem störf eru metin að verðleikum, samfélag þar sem allir njóta sömu virðingar, möguleika og tækifæra óháð kyni, fötlun, uppruna, kynhneigð, kynvitundar, kyneinkenna, kyntjáningar, aldri, búsetu, lífsskoðunar, félagslegri stöðu eða efnahag.

Við höfum ýmis tæki til að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði. Nú þegar stjórnvöld hafa lofað að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði verða sveitarfélögin að taka næsta skref og tryggja dagvistun fyrir börn strax og fæðingarorlofi lýkur. Við þurfum að viðurkenna hversu mikla ólaunaða vinnu konur inna af hendi og auka framlög til heilbrigðis- og velferðarmála til að létta álagi af konum. Að sama skapi þarf að endurmeta laun kvennastarfa út frá raunverulegu verðmæti þeirra og þeirri verðmætasköpun sem störfin skila. Þessi vítahringur er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk – og því má breyta.

Í dag, á baráttudegi verkalýðsins, fögnum við þeim sigrum sem launafólk hefur náð með sameiginlegri baráttu fyrir bættum kjörum. En við erum líka hér til að sýna samstöðu og sýna að við erum tilbúin að halda baráttunni áfram. Við ætlum okkur að halda áfram að jafna kjörin og tryggja að hér á Íslandi verði réttlátt samfélag fyrir okkur öll. Þess vegna verðum við að standa þétt saman í baráttunni áfram. Kæru félagar, til hamingju með daginn!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Í gær

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Í gær

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka