Þeir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, tókust á um þriðja orkupakkann í Kastljósinu í gær, en þingsályktunartillaga Guðlaugs um málið var lagt fyrir Alþingi í gær.
Málið mætir mikilli andstöðu hjá Miðflokknum og hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, líkt málinu við Icesave, sömu vinnubrögð væru stunduð af hálfu ríkisins í báðum málum og það væri stórhættulegt.
Guðlaugur Þór benti á að til grundvallar málinu liggi varfærnislegasta álitsgerðin sem lögð var til af sérfræðingum og sagði hann Þorstein og Miðflokkinn stunda hræðsluáróður. Fólk gæti sjálft lesið sér til um málið og komist að þeirri niðurstöðu að málið væri blásið upp af andstæðingum þess. Það sýndu álitsgerðir sérfræðinga svart á hvítu:
„Það er ábyrgðarhluti að hræða fólk með þessum hætti.“
Þorsteinn sagði að málið fjallaði um framtíðina og vildi ekki að það sem gert yrði í dag skerti möguleika framtíðarkynslóða og sagði fyrirvarana í málinu ekki „túkalls“ virði.
„Þegar menn eru með minnsta vafa, tel ég að við eigum að láta stjórnarskrána njóta þess vafa,“
sagði Þorsteinn og bætti við að færi málið óbreytt í gegn myndi það leiða til lögfræðilegs uppnáms:
„Ég er alveg sannfærður um það, ef þetta verður samþykkt eins og þetta er núna, verða hér logandi málaferli útaf öllu og engu sem í þessu er, ég er alveg sjúr á því.“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, horfði greinilega á Kastljósið í gær, en hún gerði kaldhæðnislegt grín að málflutningi Þorsteins á Twitter í kjölfarið með
tilvísun í Helen Lovejoy, prestfrúna í Simpsons þáttunum ástsælu, sem af móðursýkislegri umhyggju bar ávallt hag barnanna fyrir brjósti þegar upp komu ágreiningsmál:
„Það vantaði bara þessi rök. Hvað með börnin?“
Það vantaði bara þessi rök. Hvað með börnin? #kastljos
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) April 8, 2019