Samherji hefur lagt fram kæru til lögreglu á hendur á yfirstjórn Seðlabanka Íslands, þeim Má Guðmundssyni seðlabankastjóra, Arnóri Sighvatssyni, aðstoðarseðlabankastjóra, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns gjaldeyriseftirlits bankans, Rannveigu Júníusdóttur, núverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans og Sigríði Logadóttur, yfirlögfræðing Seðlabanka Íslands.
Þetta kemur fram í pistli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra samherja, á heimasíðu fyrirtækisins. Þorsteinn birtir einnig einn kæruliðinn, sem snýr að ætlaðri refsiverðrar háttsemi, en kæran öll er ekki birt.
Þorsteinn nefnir að Seðlabankinn hafi ekki farið eftir tilmælum um að leita sátta við Samherjaog endurgreiða sekt sem bankinn lagði á fyrirtækið:
„Seðlabankinn hefur nú formlega hafnað beiðni Samherja um sáttafund til að ákvarða bætur og málalok vegna tilhæfulausra aðgerða bankans gegn Samherja sem staðið hafa í rúm sjö ár. Þetta gerir bankinn þrátt fyrir að formaður bankaráðs hafi tjáð Alþingi að hann teldi slíkan sáttafund eðlilegan af hálfu bankans og að umboðsmaður Alþingis hefði auk þess bent á að bankinn ætti að eiga frumkvæði að því að endurgreiða álagða sekt.
Aðgerðir Seðlabanka Íslands gegn Samherja eru fordæmalausar. Bankinn fór í húsleit án þess að hafa rökstuddan grun um brot, upplýsti fjölmiðlamenn um fyrirhugaða húsleit og sendi út fréttatilkynningu um víða veröld þar að lútandi þegar húsleitin var rétt byrjuð. Ekki nóg með að húsleitin byggðist á órökstuddum grun og kolröngum útreikningum sem dómstólar staðfestu seinna að hefðu verið rangir, heldur var seðlabankastjóra á þessum tíma kunnugt um veikan grundvöll gjaldeyrisreglna enda örfáum mánuðum áður búinn að ræða það sérstaklega á blaðamannafundi. Allt kom fyrir ekki, reitt var hátt til höggs og vorið 2013 kærði bankinn Samherja og tengd fyrirtæki fyrir ætluð brot upp á tugi milljarða.
Niðurstaða málsins er sú að Samherji skilaði meiri gjaldeyri til landsins en skylt var og ásakanir um fiskverð byggðust á röngum útreikningum og vitlausri aðferðarfræði. Þá hefur álit umboðsmanns Alþingis og yfirlýsingar seðlabankastjóra í kjölfarið afhjúpað saknæmt og ólögmætt framferði helstu stjórnenda bankans gagnvart Samherja og mér persónulega.
Frá því í ársbyrjun 2017 hefur Samherji reynt að ljúka málinu og boðið Seðlabanka Íslands til viðræðna um að bæta félaginu hluta þess kostnaðar sem hlotist hefur af málinu. Þáverandi bankaráð beindi því til seðlabankastjóra að svara erindinu en bankastjóri hunsaði það.
Á fundi með bankaráði 27. nóvember 2018 ítrekaði ég vilja minn til að ljúka málinu. Fullnægjandi málalyktir af okkar hálfu væru afsökunarbeiðni frá bankanum og bætur upp í útlagðan kostnað. Yrði þá ekki frekar aðhafst af hálfu Samherja.
Allt kom fyrir ekki og þann 15. apríl sl. barst bréf frá lögmanni seðlabankans þar sem beiðni Samherja hf. um viðræðum var hafnað. Á svipuðum tíma barst mér svo bréf þar sem bankinn kvaðst ekki ætla að endurgreiða sekt sem lögð var á mig persónulega eða hlutast til um að hún verði greidd. Þessi tvö bréf eru lýsandi fyrir framkomu stjórnenda seðlabankans. Mál á hendur Samherja og síðar mér persónulega hafa verið rekin áfram á annarlegum sjónarmiðum.
Af framansögðu má öllum vera ljóst að Samherji á ekki annarra úrkosta en að höfða mál til heimtu bóta fyrir hina ólögmætu aðför sem bankinn stóð fyrir.
Fyrir utan það sem að framan er rakið, hefur komið betur og betur í ljós, í málflutningi seðlabankans, samskiptum bankans við fjölmiðla, aðdraganda húsleitar, álagningu sektar og ekki síst í harðorðum athugasemdum umboðsmanns Alþingis, að starfsmenn bankans tóku fjölmargar ákvarðanir um aðgerðir gegn Samherja í vondri trú og gegn betri vitund. Slík háttsemi varðar við refsilög og felur í sér ásetningsbrot um rangar sakargiftir. Almennir borgarar eru látnir sækja refsingu fyrir slíka framkomu. Rétt er að háttsettir starfsmenn Seðlabanka Íslands sitji við sama borð og aðrir í þessum efnum og svari til saka eins og aðrir borgarar.
Stjórn Samherja og ég persónulega höfum því talið nauðsynlegt að beina kæru til lögreglu á hendur Má Guðmundssyni, Arnóri Sighvatssyni, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, Rannveigu Júníusdóttur og Sigríði Logadóttur. Hefur kæra verið lögð fram hjá lögreglu. Þetta er ekki sú leið sem við hefðum kosið og höfum reynt að forðast en eins og hér hefur verið rakið er hún óhjákvæmileg.
Hér að neðan er einn kæruliður úr kæru sem Garðar G. Gíslason lögmaður sendi lögreglu fyrir hönd Samherja og mín persónulega, en kæran í heild sinni verður ekki birt að sinni.
Þorsteinn Már Baldvinsson“
Þorsteinn birtir einn kæruliðinn á heimasíðunni, sem er vegna ætlaðrar refsiverðar háttsemi.