Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir hægaganginn á skrifstofu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu við afgreiðslu sifjamála. Lagði hún fram fyrirspurn til Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, starfandi dómsmálaráðherra, á þinginu í gær hvernig bregðast ætti við því „ófremdarástandi sem ríkti í málaflokknum:
„Þessi mál varða lítil börn sem fá ekki að umgangast foreldri sitt, maka sem eru að reyna að fá skilnað við ofbeldisfólk en líka mál sem eru í sjálfu sér óskaplega einföld en þarf, lögum samkvæmt, að afgreiða hjá fulltrúa sýslumanns.“
Samkvæmt Helgu Völu er sifjadeild Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um hálfu ári á eftir áætlun í afgreiðslu mála:
„Staðan er sú að mál er varðar forsjá, lögheimili, skilnaði, umgengni barna við umgengnisforeldri, og leyfi foreldris til að fara með barn í frí til útlanda og komu inn á síðust 7 mánuðum hafa ekki enn farið í úthlutun til starfsmanna. Búið er að úthluta málum sem bárust í september 2018 eða fyrr! Við skulum átta okkur á því að þegar mál hefur verið tekið til umfjöllunar þá á alveg eftir að vinna þau, senda þau til lögbundinnar sáttameðferðar sem tekur óratíma og kveða upp úrskurði þegar það á við.“
Þá segir Helga Vala að fátt hafi verið um svör hjá ráðherra varðandi úrræði:
„Dómsmálaráðherra talaði um að vinna við hagræðingu væri í gangi sem og tæki við rafræn þinglýsing fljótlega sem myndi flýta málum eitthvað og létta á embættinu. Engin svör voru hins vegar tiltæk um hvernig ríkisstjórnin ætlar að koma þeim sem til sýslumanns leita með sín viðkvæmustu mál til aðstoðar. Mér finnst þetta algjörlega óboðlegt!“
Sýslumannsembættunum var fækkað úr 24 í níu árið 2015, með það að markmiði að efla embættin og gera þau að „miðstöð stjórnsýslu ríkisins í héraði.“ Þá var löggæsla að fullu aðskilin frá sýslumannsembættunum og ný lögregluembætti stofnuð samhliða. Áttu þessar breytingar að leiða af sér aukna hagkvæmni í rekstri.
Samkvæmt niðurstöðu úttektar Ríkisendurskoðunar hafa þessi markmið ekki náðst:
„Hlutfall starfsmanna í stoðþjónustu embættanna er hátt. Eigið fé allra sýslumannsembættanna er orðið neikvætt um 300 milljónir og uppsafnaður rekstrarhalli undanfarinna ára er 500 milljónir.“
Þá er mælt með að sýslumannsembættin taki upp rafræna þjónustu til að flýta fyrir afgreiðslu mála, en flestir kannast við að þurfa að bíða vikum og jafnvel mánuðum saman eftir einföldum afgreiðslum, eins og þinglýsingum.