Sigurður Már Jónsson, blaðamaður og fyrrverandi upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, gagnrýnir eignarhald, ritstjórnarstefnu og rekstur vefritsins Kjarnans harðlega í nýjasta hefti Þjóðmála sem kom út í dag.
Spyr hann til dæmis hvers vegna sé verið að halda úti þessum miðli sem skili aðeins taprekstri en litlum lestri og uppnefnir miðilinn „Kranann“.
Þá spyr hann hver sé að „halda öndunarvélinni gangandi undir því yfirskyni að Kraninn sé laus við fjárfesta, hagsmunagæslu og rugl,“ og nefnir að einn helsti eigandi Kjarnans hafi verið viðriðinn Panamaskjölin og því sé það siðlaust að Kjarninn hafi gagnrýnt aðra, til dæmis Sigmund Davíð, fyrir aðkomu sína að þeim.
Grein hans ber heitið Kjarninn- að kaupa sig til áhrifa og segir Sigurður að öll þau fyrirheit sem Kjarninn hafi boðað í upphafi, séu nú fyrir bý:
„Yfirlýsingar stofnenda Kjarnans voru hástemmdar í byrjun. Í einni auglýsingu vefritsins er haft eftir blaðamanni: „[V]ið eigum Kjarnann, engir fjárfestar, engin hagsmunaöfl, ekkert rugl.“ Ekki leið þó á löngu uns útgáfufélag Kjarnans hafði gefið út nýtt hlutafé og fjárfestar hófu að birtast í bakgrunninum og höfðu fljótt eignast á milli 30% og 40% í miðlinum á móti stofnendum. Í hluthafahópinn bættust meðal annarra Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, og Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi varaformaður flokksins. Þar með höfðu allar fjórar staðhæfingarnar í auglýsingunni fokið út í veður og vind. Miðillinn var ekki í eigu starfsmanna, með fjárfesta og augljós hagsmunatengsl.“
Sigurður segir Kjarnann hafa verið stofnaðan af vinstrisinnuðum einstaklingum úr fjölmiðlum, þegar ljóst var að vinstristjórn myndu gjalda afhroð í Alþingiskosningum 2013, en kjölfestufjárfestar voru þeir Vilhjálmur Þorsteinsson og Hjálmar Gíslason.
Sigurður nefnir að Vilhjálmur hafi verið fylgjandi Icesave samningum og verið eindreginn andstæðingur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar:
„Honum eins og mörgum vinstrimönnum var mjög brugðið við að Sigmundur Davíð yrði forsætisráðherra og sjálfsagt ekki síður vegna þess víðtæka persónulega fylgis sem hann naut á þessum tíma. Aðrir fjárfestar komu einnig af vinstri vængnum þó að þeir hefðu fæstir haft sig mikið í frammi, utan auðvitað Ágústs Ólafs Ágústssonar, sem hafði verið og varð aftur síðar alþingismaður fyrir Samfylkinguna.“
Sigurður nefnir einnig taprekstur Kjarnans og gerir skoðanir ritstjórans á taprekstri Árvakurs tortryggilegar í því sambandi. Þá segir Sigurður að miðillinn flokkist undir einskonar bloggsíðu ritstjórans, þar sem búið sé að skera niður starfssemi sína og að ekki hafi verið staðið við yfirlýsingar um stofnun rannsóknarblaðamennskusjóðs sem gefnar voru út árið 2016.
Einnig nefnir Sigurður að Kjarninn hafi lengi „endurvarpað“ skoðunum hluthafans Vilhjálms Þorsteinssonar og hafi lengi unnið náið með öðrum vinstri-sinnuðum fjölmiðlum, líkt og um syndsamlegt athæfi hafi verið að ræða:
„Þetta samstarf náði hámarki þegar ráðist var að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þá forsætisráðherra, með vinnslu og birtingu Panama-skjalanna. Ljóst var að atlagan hafði verið í undirbúningi í marga mánuði með samstarfi við erlenda fjölmiðla, en sú hugmynd að geta fellt forsætisráðherra með birtingunum heillaði vafalaust marga. Eftir á að hyggja blasir við að áherslan á Sigmund Davíð var langt umfram það sem gögnin sögðu til um.“
Einnig nefnir Sigurður að Þórður Snær ritstjóri starfi víða í öðrum fjölmiðlum, til dæmis í Morgunútvarpi Rásar 2, skrifi fréttaskýringar í Mannlíf og sé með þátt á Hringbraut, en þar starfi stjórnendur stöðvarinnar eftir svörtum lista eigandans:
„Eigandi Mannlífs er skráður Halldór Kristmannsson, sem hefur verið handgenginn Róbert Wessmann, stjórnanda lyfjarisans Alvogens. Magnús starfar sem fyrr segir frá Banda- ríkjunum, en hann er jafnframt ritstjóri tímaritsins Vísbendingar, sem Kjarninn keypti af Benedikt Jóhannessyni, fyrsta formanni Viðreisnar og fyrrverandi fjármálaráðherra. Auk þessa er Þórður Snær þáttagerðarmaður á Hringbraut, en það er verst varðveitta leyndarmál fjölmiðlaheimsins að Helgi Magnússon fjárfestir stendur að fyrirtækinu ásamt viðskiptafélaga sínum Sigurði Arngrímssyni (áður hjá Morgan Stanley), sem er skrifaður fyrir eignarhlutnum. Hann var í fréttum vegna stuðnings síns við stjórn- málaflokkinn Viðreisn, en Hringbraut hefur verið talin höll undir Viðreisn og aðild að Evrópusambandinu. Heimildir eru fyrir því að Helgi hafi samband reglulega við stjórnendur stöðvarinnar og hafi sjálfur útbúið lista yfir fólk sem eigi alls ekki að ræða við þar.“
Segir Sigurður að þrátt fyrir þetta sé Þórður óhræddur við að gagnrýna eignarhald fjölmiðla í ræðu og riti, þá helst Morgunblaðið.
Sigurður nefnir að Vilhjálmur Þorsteinsson, einn helsti eigandi Kjarnans, hafi verið eigandi aflandsfélags sem komið hafði fyrir í Panamaskjölunum:
„Í kjölfar uppljóstrana um eignarhald Vilhjálms Þorsteinssonar á aflandsfélögum árið 2015 hvarf hann úr stjórn Kjarnans en heldur enn eignarhlut sínum. Aflandseignarhaldsfélaga- flétta hans er talin flókin. Þrátt fyrir það vafðist ekki fyrir Vilhjálmi að mæta á Austurvöll og berja tunnulok með Illuga Jökulssyni og Birnu Þórðardóttur til þess að mótmæla því að annað fólk hefði tengsl við aflandsfélög í skattaskjóli.“
Sigurður nefnir að Kjarninn sé nú til húsa úti á Granda við Fiskislóð, þar sem Vilhjálmur Þorsteinsson hafi umráð yfir og telur það siðlaust að miðillinn, sem hafi slík tengsl við Panamaskjölin, skuli gagnrýna aðra fyrir slík tengsl í fréttaskrifum sínum:
„Leiða má að því líkur að Kjarninn hafi að einhverju leyti verið fjármagnaður með fjármunum sem eiga uppruna sinn í skattaskjólum. Við það þarf ekki að vera neitt ólöglegt en spyrja má hversu siðlegt það er, einkum í ljósi þeirrar gagnrýni sem Kjarninn sjálfur hefur verið iðinn við að beina til annarra.“
Sigurður skrifar einnig um að Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hafi verið eigandi hlutar í Kjarnanum áður en hann varð þátttakandi í stjórnmálum, en hann sat í stjórn Kjarnans um tíma einnig. Er hann hóf þátttöku í stjórnmálum hafi hann gert samkomulag um að verða með öllu óvirkur eigandi og sett hlut sinn í söluferli, þar sem það samrýmdist ekki þingstörfum að eiga í fjölmiðli:
„Í fjölmiðlum var greint frá því að hlutur Ágústs Ólafs í Kjarnanum hefði aukist milli áranna 2017 og 2018. Sú skýring var gefin á því að hluthafalán, sem veitt var vegna fjárfestinga á fyrri hluta ársins 2017, hefðafi verið breytt í hlutafé í byrjun árs 2018. Illa gekk að selja hlut Ágústs, sem var upp á tæp 5%, og það var ekki fyrr en um miðjan febrúar 2018 að tilkynnt var móðurfélag Kjarnans hefði að endingu keypt hlut Ágúst Ólafs. Um leið var tilkynnt að Fanney Birna aðstoðarritstjóri hefði bæst við hluthafahópinn en hún er eins og áður sagði enn í hluthafahópnum þrátt fyrir störf sín hjá Ríkissjónvarpinu.“
Ágúst Ólafur fór í leyfi frá þingstöfum eftir að greint var frá því að hann hefði áreitt blaðamann Kjarnans kynferðislega. Sigurður gerir fréttaflutning Kjarnans af málinu tortryggilegan:
„Þetta kynferðisáreiti átti sér stað á starfsstöð Kjarnans eftir lokun skemmtistaða nóttina 20. júní 2018. Kjarninn fjallaði ekki um málið fyrr en það var upplýst á öðrum vettvangi og litlar fréttir hafa verið fluttar af viðbrögðum stjórnenda Kjarnans við atvikinu. 62 ÞJÓÐMÁL Vor 2019 Tilkynningar þeirra Ágústs Ólafs og Báru Huldar voru látnar nægja í umfjöllun um málið. Athygli vekur að Bára Huld hélt áfram að birta fréttir er vörðuðu stjórnmálavafstur Ágústs Ólafs í Kjarnanum, eftir atvikið og fram að því að hann fór í leyfi. Augljóst var þó að Bára Huld var ekki ánægð með hvernig tekið hafði verið á máli hennar.“
Að lokum ákveður Sigurður að uppnefna Kjarnann fyrir ritstjórnarstefnu sína og dregur tilverurétt hans í efa, sem verður að teljast ansi sérstök nálgun hjá blaðamanni:
„Engum blöðum er um það að fletta að viðvarandi taprekstur Kjarnans hvílir þungt á eigendum, eins og sést á því að ritstjóri Kjarnans sækir fast eftir ríkisstyrkjum nú þegar allt lítur út fyrir að Alþingi samþykki að veita fjölmiðlum slíka styrki. Mikið álitamál er þó enn hvort miðillinn uppfyllir kröfur þær sem gerðar eru til styrkhæfra fjölmiðla, þar sem sáralítið er þar um frumframleiðslu frétta, en slíkt verður tíminn að leiða í ljós./
Af ritstjórnarefni og fréttum Kjarnans má vel ráða pólitískt leiðarhnoð hans, en það er borgaraleg vinstristefna sem teygir sig allt frá Vinstri grænum um Samfylkingu og yfir á miðjuna til Viðreisnar, en oft má fremur greina hana af andstæðingunum en samherjunum. Hún er raunar svo fyrirsjáanleg (og greinarnar langorðar) að gárungar í fjölmiðlastétt hafa uppnefnt miðilinn Kranann. Það er vitaskuld ekkert að því að Kjarninn marki sér ritstjórnarstefnu með þeim hætti, en það má heita fullreynt að hún afli miðlinum lesenda. Þá má hins vegar spyrja til hvers verið er að halda honum úti og hver leggi honum til fé til þess að halda öndunarvélinni gangandi undir því yfirskyni að Kraninn sé laus við fjárfesta, hagsmunagæslu og rugl.“