Líkt og DV greindi frá í dag þá lenti Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í munnlegu áreiti í Hagkaupum í Garðabæ í fyrrakvöld, hvar hipster í andlegu ójafnvægi hrópaði ókvæðisorðum á borð við „Samfylkingardrulla“ að þingmanninum.
Sjálfstæðismaðurinn Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og stofnandi Hægri grænna, virðist taka við kyndli hipstersins orðljóta, í umfjöllun sinni um nafna sinn, á Facebook í dag.
Guðmundur er hluti af Orkunni okkar, hópi fólks sem berst gegn innleiðingu þriðja orkupakkans. Eyjan greindi frá því í vikunni að rekja mætti hluta af nafnlausu bréfi sem gekk um samfélagsmiðla til Guðmundar, en í bréfinu var fjallað um eignir eiginkonu og tengdafjölskyldu utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í því skyni að gera stöðu Guðlaugs tortryggilega gagnvart þriðja orkupakkanum.
Guðlaugur hrakti málflutninginn sjálfur og sagði hann bera vitni um „málefnafátækt þeirra sem berðust gegn þriðja orkupakkanum með öðru en rökum.“
Guðmundur er þó hvergi af baki dottinn og kallar Guðmund Andra lítilmenni fyrir að samþykkja þriðja orkupakkann:
„Sjá þetta lítilmennni, sem ræðst að gömlu fólki og ætlar það vitleysinga. Sjá þetta lítilmenni sem ræðst að einkafyrirtæki úr pontu Alþingis. Sjá þetta lítilmenni sem talar niðrandi um geðfatlaða. Sjá þetta lítilmenni sem ætlar að fara að samþykkja Orkupakka 3 og ræna komandi kynslóðir framtíðinni. Sjá þetta litilmenni, það kann ekki að skammast sin og hefur enga sómakennd, Baugspenninn sjálfur……Litilmennið sagði ma.: „Svona leit hann þá út, reiði maðurinn í athugasemdakerfunum. Kannski var þetta veikur maður en það sem vall upp úr honum var sami reiðilesturinn og við getum daglega séð á netmiðlum og heyrt skötuhjúin á Útvarpi Sögu draga upp úr viðmælendum sínum til að eitra hugi vesalings gamla fólksins sem hefur ekki lengur Sagnaslóð í útvarpinu að hlusta á.“