Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir í pistli sínum í dag að stjórnvöld megi ekki draga lappirnar varðandi breytingar á skattkerfinu líkt og lofað var. Segir hún að verkalýðshreyfingin muni ekki sætta sig við þriggja ára innleiðingu og krefst tafarlausra svara:
„Það er ljóst að skattabreytingarnar þurfa að koma hratt til framkvæmda og án undanbragða. Fulltrúar vinnandi fólks munu ekki sætta sig við að þær verði innleiddar á næstu þremur árum. Á þeim félagsfundum sem undirritaðar hafa setið, þar sem samningarnir og yfirlýsing stjórnvalda hefur verið kynnt, leggja félagsmenn mikla áherslu á skjót svör af hálfu stjórnvalda. Öll spjót standa því á stjórnvöldum að svara kalli vinnandi fólks og upplýsa um það hvernig fyrirhugaðar skattalækkanir verða framkvæmdar.“
Drífa minnir á loforð stjórnvalda um skattalækkanir:
„Grundvöllur þeirra samninga sem nú eru í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum stéttarfélaganna er meðal annars loforð um skattalækkanir til handa þeim sem lægstar tekjur hafa, þar með taldir aldraðir og öryrkjar. Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við samningana stendur orðrétt:
„Komið verði á fót þriggja þrepa skattkerfi með nýju lágtekjuþrepi. Miðað er við að sú aðgerð auki ráðstöfunartekjur tekjulægsta hópsins um tíu þúsund krónur á mánuði.“
Í ljósi þeirra alvarlegu breytinga sem átt hafa sér stað á skattkerfinu á síðustu áratugum, þar sem skattar hafa verið færðir af tekjuháum hópum yfir á tekjulága, krafðist verkalýðshreyfingin vegna augljósra sanngirnissjónarmiða fjögurra þrepa skattkerfis auk leiðréttingar á fyrrnefndri skattatilfærslu. Lengra varð ekki komist að þessu sinni en barátta Alþýðusambandsins fyrir réttlátu skattkerfi heldur áfram.“