„Ég hefði reyndar ekkert á móti því að öll gögn málsins yrðu gerð opinber. Það verður hins vegar ekki gert nema að fengnu samþykki Samherja og það yrði að stroka yfir upplýsingar sem koma fram um þriðju aðila. Eðlileg þagnarskylda gerir það hins vegar að verkum að það er oft ekki hægt og er þá viðtekið svar að viðkomandi geti ekki tjáð sig um einstök mál. Þetta á einnig við um Seðlabankann þegar kemur að málum einstakra aðila varðandi gjaldeyrislög, hvort sem það er eftirlit, undanþágur eða rannsóknir. Það virðist hins vegar að slík tilsvör séu síður samþykkt þegar kemur að Seðlabankanum.“
Svo reit Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í bréfi sínu til forsætisráðherra í lok febrúar, um upplýsingarnar í Samherjamálinu. Bætti hann við að tilhneiging væri á því að túlka þögn bankans sem vísbendingu um að eitthvað þyldi ekki dagsljósið:
„Seðlabankinn á því erfiðara með því að draga sig inn í skel og bíða þar til mál skýrast. Orðsporsáhætta og neikvæð smitáhrif á aðra starfsemi getur orðið meiri í tilfelli Seðlabankans en sérhæfðari eftirlitsstofnana, lögreglu og saksóknara.“
Stundin greinir frá því í dag að ítrekuð neitun hafi borist frá Seðlabankanum vegna fyrirspurnar miðilsins um gögn Samherjamálsins, en Stundin kærði fyrri synjun Seðlabankans til úrskurðarnefndar upplýsingamála í mars mánuði.
Nú hefur Seðlabankinn svarað kærunni hvar ákvæðið um þagnarskyldu er tíundað, þrátt fyrir að Stundin hafi bent á ofangreind orð Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, sem taldi ekkert því til fyrirstöðu að opinbera gögnin:
„Röksemdir kæranda hvað þetta varðar geta aldrei talist efnisrök fyrir aðgangi að umbeðnum upplýsingum. Leit hans að sannleikanum og meintir almannahagsmunir geta ekki vikið til hliðar skýrum lagaákvæðum um þagnarskyldu.“