Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, hélt ræðu á aðalfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á dögunum, þar sem hann ræddi meðal annars um fiskeldi hér á landi. Nefndi hann að tvö frumvörp lægju fyrir um greinina, annarsvegar um breytingu á lögum um fiskeldi og einnig er varðar gjaldtöku á greinina.
Sagði Kristján að lykillinn í velgengni norskra fiskeldisfyrirtækja vera samvinna stjórnvalda, fiskeldisfyrirtækja, náttúrunnar og vísinda. Virtist hann hnýta í Hafrannsóknarstofnun sérstaklega, því hann hvatti hana sérstaklega til að leggja sitt af mörkum, en stofnunin hefur reynst fiskeldisfyrirtækjum óþægur ljár í þúfu varðandi leyfisveitingar:
„Ef við heimfærum þetta yfir á stöðu mála hér á landi þá er augljóst að margt þarf að gera betur. Nú er unnið að því að styrkja þann hluta sem snýr að stjórnvöldum, meðal annars með því að setja á fót samráðsnefnd allra þessara aðila. En ég vil jafnframt skora á ykkar samtök að beita ykkur fyrir því að fiskeldisfyrirtækin tali sem næst einni röddu. Jafnframt þarf að nást meiri samstaða og sátt um hinn vísindalega þátt sem hvílir hjá Hafrannsóknastofnun. Þar þurfa allir – meðal annars stofnunin sjálf – að leggja sitt að mörkum.“
Í framhaldinu sagði Kristján:
„Í því samhengi má ekki gleyma því að sjálf vísindin ganga jú ekki síst út á að kynda undir neistum efans og útiloka aldrei að ný þekking verði til þess að aðlaga þurfi fyrri kenningar nýrri vitneskju eða að þeim verði jafnvel kollvarpað.“
Kristján nefnir hversu hratt greinin hefur byggst upp á liðnum árum og segir hana komna til að vera:
„Þá verð ég að segja að mér finnst umræðan á stundum með þeim hætti að atvinnugreinin sé ekki að byggjast upp. Að það sé hreinlega allt stopp eða að greinin sé á allra fyrstu árum síns æviskeiðs. Í því samhengi minni ég á að í fyrra voru framleidd rúm 13 þúsund tonn af eldislaxi. Samkvæmt upplýsingum frá eldisfyrirtækjunum er ráðgert að framleiða 45 þúsund tonn árið 2021, eftir tvö ár. Þetta þýðir rúmlega þreföldun á framleiðslu á þremur árum. Þetta myndi þýða að útflutningsverðmæti eldisfisks árið 2021 yrði svipað og samanlagt útflutningsverðmæti loðnu, kolmunna og makríls var árið 2017. Þetta er stórmerkilegt ef þetta gengur eftir.
Íslenskt fiskeldi er komið til að vera og hefur alla burði til að verða enn sterkari og öflugri atvinnugrein. Ábyrgð stjórnvalda er að skapa greininni þannig lagaumhverfi að það verði vandað til verka í þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Stuðla að því að hún sé sjálfbær, í sátt við umhverfið og ákvarðanir verði byggðar á vísindalegri ráðgjöf og rannsóknum. Á þessum grunni verða fiskeldi allir vegir færir.“