Kolbrún Bergþórsdóttir hefur verið dugleg við að láta Klaustursþingmennina fá það óþvegið í leiðurum Fréttablaðsins og dregur hvergi undan í dag þar sem hún sakar Bergþór Ólasson, þingmann Miðflokksins, um sjálfsvorkun. Tilefnið er ræða Bergþórs á Evrópuráðsþinginu á dögunum, sem Kolbrún segir „vandræðalega“:
„Það var verulega vandræðalegt að sjá í seinni fréttatíma RÚV, síðastliðið þriðjudagskvöld, myndir af þingmanni Miðflokksins Bergþóri Ólasyni bera sakir af Klausturþingmönnunum í ræðu á sjálfu Evrópuráðsþinginu. Á þinginu mælti Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, fyrir þingsályktun um að aðildarríki setji á fót óháða nefnd eða stofnun sem hægt verði að leita til verði starfsmaður þjóðþings fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreitni. Áður hafði verið birt skýrsla þar sem Klausturmálinu var lýst í einni efnisgrein. Af þessu tilefni sá Bergþór ástæðu til að vekja athygli fulltrúa Evrópuráðsþingsins á því sem honum finnst vera ill meðferð á sér og félögum sínum í Klausturmálinu og gaf í skyn að pólitískir andstæðingar nýttu sér málið í pólitískum tilgangi.“
Þá segir Kolbrún að Klaustursþingmenn hafi verið æði duglegir undanfarið við að vekja athygli á máli sínu, sem sé æði furðulegt, þar sem málstaður þeirra sé engan veginn góður:
„Það er ekki viturlegt af þeim að leggjast í útrás til að predika að þeir hafi verið hafðir fyrir rangri sök.“
Bergþór sagði í ræðu sinni að handrit af upptökum Klaustursþingmanna sýndu aðra mynd en haldið hafði verið að fólki:
„Ekki útskýrði þingmaðurinn það nánar. Fyrst hann var á annað borð að vekja athygli þingsins á málinu hefði mátt ætla að hann myndi rekja hvað það er nákvæmlega sem er svo mikið öðruvísi þar en haldið hefur verið fram. Hvað í atburðarásinni er svo mikilvægt að það setji orðin sem féllu á barnum í garð kvenna í algjörlega nýtt samhengi og geri þau nánast merkingarlaus? Hafi þingmaðurinn séð myndir úr upptökuvélum ætti hann að eiga auðvelt með að útskýra hvað hann á við og fræða þá Evrópuráðsþingið sem og íslensku þjóðina,“
segir Kolbrún og lofar ræðu Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, Pírata, sem hún kallar þjóðarsóma:
„Þórhildur Sunna var sannur þjóðarsómi þegar hún svaraði Bergþóri fullum hálsi og röggsamlega með orðunum: „Kæru félagar, skýrslan er byggð á pólitískum hvötum, en ekki til þess að ráðast á Bergþór heldur til að ráðast á það pólitíska umhverfi þar sem konur er hafðar út undan, þær niðurlægðar eða hlutgerðar á grundvelli kyns. Það er pólitík sem ég er stolt af að tala fyrir.“ Fyrir þessi orð sín uppskar Þórhildur Sunna vitanlega mikið klapp þeirra sem voru í salnum.“
Þá segir Kolbrún að Klaustursþingmenn þurfi að hugsa sinn gang:
„Allt frá því Klausturmálið kom upp hafa þingmennirnir sem voru á barnum ekki sýnt vott af iðrun. Þeir virðast trúa því staðfastlega að þeir hafi ekki gert neitt sérstaklega mikið af sér og sjá óvini í öllum hornum og telja sig fórnarlömb viðamikils samsæris. Einn í þessum hópi mætir síðan á Evrópuráðsþingið og ber sakir af sér og félögum sínum. Þessi ferð hans á þingið var mikil sneypuför, eins og sjá má á myndbandsupptökum. Klausturþingmenn verða að láta af hjákátlegri sjálfsvorkunn ætli þeir sér ekki að verða enn frekar að alþjóðlegu athlægi.“