Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú aðeins 36 prósent, samkvæmt könnun Zenter fyrir Fréttablaðið. Stuðningurinn mældist 47 prósent í síðustu könnun sem gerð var í desember.
Þrátt fyrir þetta bæta Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn við sig fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn fær rúmlega 24 prósent nú, en fékk um 21 prósent í síðustu könnun.
Framsókn fær nú rúmlega 9 prósent, aukning um eitt prósentustig.
Það fellur í skaut VG að tapa fylginu af stjórnarflokkunum. VG mælast með 10,2 prósent, sem er einu og hálfu prósenti minna en í síðustu könnun.
Miðflokkurinn, sem hefur verið rokkandi frá Klaustursmálinu, bætir við sig og mælist nú með 6,6 prósent.
Viðreisn mælist með 9,7 prósent, sem er rúmlega hálfu prósenti meira en í síðustu könnun.
Samfylkingin tapar mestu fylginu fer úr tæplega 21 prósenti niður í 17,4 prósent. Kjörfylgi var rúm 12 prósent í kosningum.
Fylgi Pírata mælist einu og hálfu prósentustigi minna en síðast og þá dregst fylgi Flokks fólksins lítillega saman.
Könnunin var send á könnunarhóp Zenter rannsókna, 18 ára og eldri um land allt, dagana 28. febrúar og 1. mars. Úrtakið var 3.100 manns og svarhlutfallið 46 prósent, samkvæmt Fréttablaðinu.