fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Dóra sakar Vigdísi um „Trumpíska“ hegðun – Vigdís segir Dóru færa „tuddalætin“ inn á Facebook

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 6. mars 2019 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er sjaldan lognmolla í Ráðhúsi Reykjavíkur þessa dagana og nú virðast „tuddalætin“ hafa færst inn á samfélagsmiðlana, svo vísað sé til orðfæris Vigdísar Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins í Reykjavík.

Lætin að þessu sinni snúast um lögmæti innviðagjalda Reykjavíkurborgar. Vigdís Hauksdóttir segir þau ólögleg, en Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pírati og forseti borgarstjórnar, segir lögfræði vera „huglægt mat“ hjá Vigdísi. Þess ber að geta að Vigdís er lögfræðingur að mennt og beitir fyrir sér lögfræðimati LEX lögmannsstofu um innviðagjöldin. Þar er sagt að færa megi sterk rök fyrir því að gjaldtakan sé ólögmæt, þó svo hluti af þeim geti talist lögmætur.

Að Trumpískum sið

Dóra Björt skrifaði í gær um framgöngu Vigdísar á fundi borgarstjórnar þegar kom að innviðagjöldunum:

„Nú er lögfræði allt í einu orðin að huglægu mati Vigdísar Hauksdóttur. „Innviðagjöld eru ólögleg að mínu mati“ sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á borgarstjórnarfundi nú rétt í þessu. Eitt dæmi af óteljandi um það hve sveigjanlegt samband borgarfulltrúinn hefur við sannleikann. Allt er beygt og teygt eftir hentisemi, að Trumpískum sið,“

segir Dóra Björt og nefnir að Vigdís hlusti ekki á rök:

„Hvernig á heiðvirt fólk sem vill fara rétt með að mæta svona? Það er ekki hlustað á rök. Það er ekki hlustað á staðreyndir. Og þegar við útskýrum hvernig þessi staðhæfing er alröng þá er það eins og að skvetta vatni á gæs. Og svo dreifist svona vitleysa um samfélagið og almenningur fer að trúa þessu. Það er lýðræðislegt vandamál. Ég hef verulegar áhyggjur af lýðræðinu um þessar mundir.“

Tuddalæti og lestur til gagns

Vigdís bregst við orðum Dóru og skrifar:

„Vel gert Dóra, frú forseti borgarstjórnar – færir tuddalætin inn á facebook – þurfti að ræða ónæðið og geiflurnar og flissið í lok máls míns – nú opinberar þú þig alveg og kærar þakkir fyrir það 🙂 Og svo er alltaf gott að lesa sér til gagns,“

segir Vigdís og birtir minnisblað frá LEX lögmannsstofu um lögmæti innviðagjalda Reykjavíkurborgar sem Samtök atvinnulífsins kölluðu eftir.

Þar segir meðal annars að innviðagjaldið sé hvorki skattur né þjónustugjald í skilningi laga og að færa megi sterk rök fyrir því að gjöldin séu ólögmæt:

„Með vísan til framangreinds telur LEX að innviðagjaldið sé, a.m.k. að stórum hluta, almennt tekjuöflunartæki Reykjavíkurborgar til viðbótar við þá tekjustofna sem borginni standa nú þegar til boða á grundvelli laga. Þótt hluti innviðagjaldsins geti mögulega verið lögmætur, þ.e. í þeim tilvikum þar sem fjármögnuð eru verkefni sem hvorki heyra til lögbundinna verkefna sveitarfélagsins né til verkefna sem eru þegar fjármögnuð með mörkuðum tekjustofnum, virðist gjaldið vera innheimt í einu lagi og án þess að fjárhæðin sé sundurliðuð til tiltekinna verkefna. Að mati LEX má færa nokkuð sterk rök að því að gjaldtakan sé ólögmæt. Við slíkar aðstæður gætu lóðarhafar krafist endurgreiðslu innviðagjaldsins á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.“

Bókun Vigdísar um innviðagjöldin, sem varð til þess að Dóra Björt skrifaði færslu sína, er svohljóðandi:

„Sterk rök eru fyrir því að innviðagjald sé ólögmætt því ekki er lagastoð fyrir innheimtu þess. Hinn 9. febrúar 2017, skilað borgarlögmaður minnisblaði um að borgin teldi sig ekki þurfa lagaheimild til töku innviðagjaldanna, þar sem um væri að ræða einkaréttarlegan samning við lóðarhafa. Það væri hvorki skattur né þjónustugjald í skilningi laga. Þá kom fram í svarinu að innviðagjöldum væri ætlað að mæta kostnaði sem fælist í gerð nýrra gatna, lagnakerfa, færslu gatna og lagna, gerð stíga, torga, opinna svæða, byggingu skóla og s. frv. Gjaldið virðist einkum lagt á við tvenns konar aðstæður – í fyrsta lagi þegar einkaðilar kaupa lóðir í eigu Reykjavíkurborgar og í öðru lagi þegar lóðarhafar sem þegar eiga lóðarleiguréttindi á tiltekinni lóð hafa óskað eftir breytingum á deiliskipulagi lóðar sinnar. Innviðagjaldið er að stórum hluta, almennt tekjuöflunartæki Reykjavíkurborgar til viðbótar við þá tekjustofna sem ákvarðaðir eru samkvæmt lögum. Verði innviðagjaldið dæmt ólögmætt gætu lóðarhafar krafist endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Verði ekki látið reyna á þessa réttarspurningu fyrir dómstólum leggur borgarfulltrúi Miðflokksins það til að álit verði fengið á lögmæti þess hjá Umboðsmanni Alþingis sem hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Trúverðugleiki Miðflokksins

Orðið á götunni: Trúverðugleiki Miðflokksins
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Diljá Mist hæðist að Miðflokksmönnum – „Það borgar sig að mæta í vinnuna“

Diljá Mist hæðist að Miðflokksmönnum – „Það borgar sig að mæta í vinnuna“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“