Sveinn R. Eyjólfsson, fyrrverandi blaðaútgefandi, gagnrýnir Dag B. Eggertsson borgarstjóra vegna tillögu meirihlutans til lausnar á heimatilbúnum húsnæðisvanda ungs fólks, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Sveinn segir Dag hafa slegið öll met:
„Nú hafa Dagur og hjálparlið hans í borginni slegið öll met í niðurrifsstarfsemi sinni og er þó af nógu að taka. Nýjar tillögur þeirra til lausnar á heimatilbúnum húsnæðisvanda unga fólksins hafa verið tilkynntar. Byggja skal litla skúra á baklóðum húsa í borginni og innrétta eins marga bílskúra og hægt er, til íbúðar.“
Sveinn segir átakanlegt að gera sér grein fyrir því óefni sem í stefnir í húsnæðismálum þegar málum sé svo háttað:
„Nú skal unga fólkinu komið fyrir í skúrum og bílageymslum á baklóðum borgarinnar, en stórfyrirtækjum og byggingavertökum afhentar allar góðar byggingalóðir miðborgarinnar. Öll miðborgin er orðin að einu stóru Skuggasundi, þar sem aldrei sést til sólar og Reykvíkingar geta hvorki séð hafið né Esjuna, fjall Reykjavíkur. Að sjálfsögðu hefur enginn venjulegur borgari efni á að kaupa íbúðir miðborgarinnar sem eru til sölu á margföldu verði.“
„Núverandi borgarstjóri ætlar sem sagt, með stuðningi fulltrúa „Viðreisnar“ og „Pírata“ í borgarstjórn, að fara þá leið að endurvekja ástand eftirstríðsáranna í búsetumálum Reykvíkinga. Nú skulu sem flestir hljóta örlög „Guðrúnar í skúrnum“.
Sveinn vísar til Guðrúnar nokkurrar, ekkju með tvö börn, fyrir um 60-70 árum síðan, sem bjó í skúr í Rauðarárholtinu, en hún er Sveini minnisstæð fyrir bágbornar aðstæður sínar, sem hann segir nýja stefnu Dags B. Eggertssonar minna á:
„Hún var stórmyndarleg og reglusöm kona, sem sá fyrir fjölskyldunni með skúringum á kvöldin í nokkrum verzlunum í nágrenninu. Það var útilokað að hún, sakir húsnæðisskorts og fátæktar, gæti komið sér í betri aðstæður. En sem betur fer ríkti þarna ráðdeild og reglusemi. Þessi kona var alltaf kennd við skúrinn sinn og kölluð „Guðrún í skúrnum“ . Nágrannar, þótt lítt hefðu aflögu sjálfir, reyndu oft að færa henni og börnunum lítilræði. Börn „Guðrúnar í skúrnum“ voru dugleg og vel gerð og urðu bæði landsþekktir vísindamenn í okkar þjóðfélagi. Ég er hræddur um að þau sjái ekki kostina við þær fyrirætlanir Dags B. Eggertssonar og fylgifiska hans að endurvekja þetta ástand í húsnæðismálum Reykjavíkurborgar.“