fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Afdrif Skúla óljós – Býr í einu dýrasta húsi landsins sem veðsett er fyrir verðlausum skuldabréfum

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 28. mars 2019 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjárhagsleg framtíð Skúla Mogensen í kjölfar gjaldþrots WOW air er sögð óljós, en Skúli sagði í dag að hann hefði sett aleigu sína í rekstur félagsins. Skúli á og býr í einu dýrasta og fallegasta einbýlishúsi landsins á Seltjarnarnesi.

Húsið er veðsett fyrir skuldabréfum, sem nú verða að teljast nær verðlaus, í ljósi frétta dagsins og mun Skúli því tapa verulegum fjármunum, sem og kröfuhafar.

Hús Skúla var í eigu Helgu Gísladóttur frá árinu 2002 en hún og eiginmaður hennar Eiríkur Sigurðsson voru eigendur Víðis verslananna, en fyrirtækið var lýst var gjaldþrota í júní í fyrra.

Fyrirtækið Kotasæla ehf. keypti húsið af þeim hjónum 9. júní 2016, en fyrirtækið er í eigu Skúla og heldur það utan um jarðirnar Hvamm og Hvammsvík, sem keyptar voru af Orkuveitu Reykjavíkur eftir útboð árið 2011.

Húsið er 609 fm að stærð, byggt árið 2008, á tveimur hæðum og stendur á sjávarlóð. Fasteignamat hússins er 261 milljón króna. Þegar húsið var til sölu árið 2013 var verðmiðinn 350 milljónir króna. Má ætla að Kotasæla ehf. hafi keypt það nálægt því verði árið 2016, en kaupverð kemur ekki fram á afsali.

Þremur árum síðar, nærri upp á dag, selur Kotasæla ehf. húsið til Skúla persónulega, eða 10. júní 2018, og kemur kaupverð ekki fram í því afsali heldur.

Við bæði eigendaskipti er eignin sögð veðbandalaus, en í dag hvílir hins vegar á eigninni tryggingabréf frá Arionbanka að fjárhæð 2.770.000 evra, eða um 381 milljón íslenskra króna og er því þinglýst þann 28. september í fyrra.

Fyrirtæki Skúla, Kotasæla ehf., skuldaði Skúla tæpar 150 milljónir í árslok 2017 og átti kröfur á hendur WOW air að andvirði rúmlega 250 milljóna króna, samkvæmt Stundinni, sem segir líklegt að Skúli hafi gert samkomulag um skuldajöfnun, þannig að hann fengi húsið upp í kröfur sínar á hendur félaginu.

Þá skuldaði Kotasæla ehf., öðrum félögum Skúla um 660 milljónir.

Skúli sagðist í dag ekki vita hvað yrði um eignir sinna félaga, en Hæstaréttarlögmennirnir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson eru skiptastjórar þrotabús WOW air.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt