Meðal þeirra aðgerða sem gripið verður til þegar og ef Brexit verður að veruleika er að öll umferð einkabíla á M20 hraðbrautinni í Kent verður bönnuð. Þar mega aðeins flutningabílar og ökutæki viðbragðsaðila á borð við lögreglu og sjúkraliðs aka.
Um 200 hermenn verða til taks víða um land til að flytja bensín til bensínstöðva til að koma í veg fyrir eldsneytisskort.
Þetta er meðal þess sem kveðið er á um í viðbragðsáætlun við útgöngu Breta úr ESB án þess að samningur um útgönguna liggi fyrir, svokallað „no deal“ Brexit.
En það eru ekki bara herinn og stjórnvöld sem undirbúa sig undir „no deal“ Brexit því einkafyrirtæki eru einnig að gera það og vinna nú hörðum höndum að því að fylla birgðageymslur sínar.
„No deal“ mun hafa í för með sér ringulreið því Bretar þurfa að flytja ýmsar vörur inn, ekki síst matvörur, sem þeir framleiða ekki nóg af sjálfir. Á degi hverjum koma mörg þúsund flutningabílar yfir Ermasund og undir það, í gegnum Eurotunnel og með ferjum, með vörur. 88 prósent af þessum flutningabílum er síðan ekið eftir M20 hraðbrautinni til Lundúna. Þessi mikla umferð gengur vel og átakalaust í dag vegna hinna opnu landamæra ESB en ef „no deal“ verður raunin verður að taka upp landamæraeftirlit og þar með tollaeftirlit þegar Brexit brestur á. Eftirlit tekur tíma og ef tveimur mínútum verður varið í eftirlit með hverjum flutningabíl hefur það í för með sér 27 km langa röð á M20.