Í tilkynningu sem stjórnarráðið sendi frá sér í kjölfar tilkynningar WOW air kemur fram að undanfarið ár hafi stjórnvöld fylgst með erfiðleikum í alþjóðlegum flugrekstri og stöðu íslenskra flugfélaga.
„Stjórnvöld hafa síðasta árið fylgst með erfiðleikum í alþjóðlegum flugrekstri og samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga í því ljósi. Eigendur Wow air hafa um nokkurra mánaða skeið leitað leiða til að tryggja rekstur félagsins og hafa átt viðræður við fjárfesta, flugrekendur og aðra haghafa. Hingað til hafa þær viðræður ekki skilað þeim árangri sem eigandi félagsins stefndi að.“
Segir í tilkynningunni sem var birt á vef stjórnarráðsins.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við nokkra sérfræðinga á flugmarkaði en þeir voru ekki viljugir til að koma fram undir nafni. Þeir voru sammála um að öll sund væru nú að lokast fyrir WOW air.
Einnig er haft eftir Sveini Þórarinssyni, sérfræðingi hjá Landsbankanum, að ekki sé útilokað að fyrirtækin hafi átt í viðræðum undanfarið og að erfiðleikar Icelandair vegna Boeing MAX 8 flugvélanna hafi ýtt fyrirtækjunum út í frekari viðræður.
Fréttablaðið skýrði frá því fyrr í vikunni að óformlegar þreifingar hefðu verið á milli WOW air og Icelandair að undanförnu.