fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Jón Steinar: „Ekki láta undan úrtölumönnum“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 19. mars 2019 14:30

Jón Steinar Gunnlaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

Tveir umsækjendur um dómaraembætti við Landsrétt, sem Alþingi hafði ekki skipað til þeirra embætta, þrátt fyrir að þeir væru meðal 15 efstu á excelskjali dómnefndar, fengu sér tildæmdar miskabætur með hæstaréttardómum í desember 2017. Engin tækur lagagrundvöllur var fyrir þessum niðurstöðum dómsins. Hann var bara búinn til svo unnt yrði að dæma svona. Þannig var sagt að ráðherrann hefði brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, þegar hann gerði tillögu til Alþingis um hverja skipa skyldi. Þetta var auðvitað alveg galið, enda engin leið að sjá hvað ráðherrann hefði vanrækt að rannsaka. Hann hafði í höndunum umsóknir umsækjendanna og öll gögn sem þeim höfðu fylgt. Svo hafði hann einnig fyrir sér niðurstöðuna í excelskjali dómnefndar.

En þetta var ekki nóg til að dæma mætti þessum mönnum miskabætur. Til þess þurfti líka að komast að þeirri niðurstöðu að drýgð hefði verið „meingerð“ á þeim en kveðið er á um þetta skilyrði fyrir miskabótum í lögum. Dómurinn fór létt með að telja að svo hefði verið án þess að nokkur glóra væri í því, enda hafði hvorki ráðherra né Alþingi sagt neitt niðrandi um þessa umsækjendur. Niðurstaðan virtist byggjast á því að nóg væri til „meingerðar“ að hafa sótt um embætti en ekki fengið. Taka má fram að öðrum borgurum, sem sannarlega hafa orðið fyrir meingerðum af hálfu opinberra aðila, er að jafnaði neitað um svona bætur. Svo var til dæmis um konuna, sem ákærð hafði verið en sýknuð af því að hafa svipt sjúkling lífi af gáleysi. Hinu sama gegnir um trúarforstjórann (Snorra í Betel) sem sviptur var kennarastöðu fyrir að hafa tjáð sig um trúmál sín utan skólans sem hann kenndi við. Desemberdómar Hæstaréttar eru dæmi um augljósa og sorglega misnotkun dómsvalds. Ástæðuna er að rekja til valdatafls dómara við aðra handhafa ríkisvalds. Dómurinn varð við þessum kröfum umsækjendanna vegna þess að hann taldi það þjóna hagsmunum sínum í valdatafli við aðra handhafa ríkisvalds um hver ætti að ráða skipun nýrra dómara.

Svo hefur Hæstiréttur einnig sagt í forsendum dóms, að lög hafi verið brotin við meðferð máls um skipun dómaranna á Alþingi. Greiða hefði átt atkvæði um hvern og einn umsækjanda um sig en ekki alla í einu lagi. Nú er það svo að starfshættir Alþingis ráðast af lögum um þingsköp Alþingis. Enginn hefur svo mér sé kunnugt haldið því fram að meðferð málsins þar á bæ hafi ekki uppfyllt kröfur þeirra laga. Þar að auki mun liggja fyrir að dómsmálaráðherra hafi lagt til að atkvæði yrðu greidd um einn í einu en stjórnendur þingsins ákveðið annað án nokkurra andmæla annarra alþingismanna, sem hver og einn gat krafist þess að atkvæðagreiðslan færi fram með þeim hætti sem Hæstiréttur síðar taldi réttari.

Niðurstaðan er og verður sú að réttum lögum að ekkert var athugavert við meðferð og afgreiðslu Alþingis á tillögu ráðherra um dómaraefnin.

MDE tók ofangreind atriði ekki til efnislegrar meðferðar í dómi sínum 12. mars. Dómstóllinn kvaðst bara leggja til grundvallar það sem fram hefði komið í forsendum þessara dóma Hæstaréttar um að ekki hefði að öllu leyti verið farið að lögum við skipan dómaranna. En þá kemur spurningin. Fyrst dómstóllinn lagði þessi atriði til grundvallar án þess að skoða þau efnislega, hvers vegna lagði hann þá ekki líka til grundvallar þá niðurstöðu Hæstaréttar í dómi vorið 2018 í máli kærandans, að landsréttardómarinn sem málið snerist um teldist hafa hlotið skipun sem gild væri að íslenskum lögum? Getur verið að dómstóllinn hafi ekki talið það henta fyrirfram ákveðinni niðurstöðu sinni? Hann hafi bara valið það úr niðurstöðum Hæstaréttar Íslands sem hentaði inngripinu í fullveldi þjóðarinnar?

Nú troða þeir upp hér innanlands sem vilja festa í sessi vald dómaraelítunnar til að ákveða hverjir skuli fá að koma nýir inn í hóp þeirra. Þeir telja óráðlegt að óska eftir áliti yfirdeildar MDE. Ástæðan fyrir því er sýnilega sú að þeir óttast að yfirdeildin muni snúa dómi meirihlutans í sjö-manna dóminum við. Þannig hefur stjórn dómstólasýslunnar ályktað, en hún lýtur yfirstjórn Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara. Ráðherrann má ekki láta undan þessu. Við verðum að gefa þessum dómstól þar ytra tækifæri til að leiðrétta villu sína. Verði niðurstaðan sú að staðfesta innrásina sem undirdeildin gerði í fullveldi Íslands, hljótum við að þurfa að hugsa okkar mál. Viljum við vera áfram sjálfstætt og fullvalda ríki eða viljum við fela yfirráð okkar mála í hendur erlendra stofnana? Því myndum við þá þurfa að svara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð