Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, segir að sátt hafi ríkt um launalækkun bankastjórans Birnu Einarsdóttur á dögunum, sem tekur gildi frá og með næstu mánaðarmótum, en forsenda lækkunarinnar eru tilmæli fjármálaráðherra um hófleg laun stjórnenda.
„Við þurftum að ræða þetta fram og til baka, það er ekkert smámál að gera þessar breytingar,“
segir Friðrik við Fréttablaðið, en Friðrik ásamt stjórn Íslandsbanka vörðu launaákvarðanir sínar nýlega í bréfi til Bankasýslu ríkisins, sögðu þær hóflegar og ekki leiðandi, en Birna var, þrátt fyrir 14 prósenta launlækkun í upphafi árs, næstlaunahæsti bankastjórinn, af þremur stóru viðskiptabönkunum.
Friðrik bendir á að Birna megi ekki sitja í stjórnum annarra fyrirtækja, líkt og raunin sé með aðra ríkisforstjóra, sem fái greitt fyrir stjórnarsetu sína:
„Það voru umræður í þjóðfélaginu, bæði bréfaskipti milli fjármálaráðuneytisins og bankasýslunnar og umræður ýmissa ráðherra um þessi launamál sem gera það að verkum að við töldum ástæðu til að endurskoða launasetningu bankastjórans. En okkur hefur þótt staða Íslandsbanka sérstök og öðruvísi en hjá öðrum því sögulega hefur bankinn ekkert verið í eigu ríkisins. Hann var ekki einn þeirra sem voru einkavæddir um síðustu aldamót og Íslandsbanki og forverar hans verið í eigu einkaaðila talsvert langt aftur í tímann. Bankinn starfar auðvitað á samkeppnismarkaði og sá markaður er alltaf að breytast og það hefur meðal annars ráðið launasetningunni hingað til. Bankastjóranum er ekki heimilt að sitja í stjórnum fyrirtækja og fá fyrir það laun. En það er á allra vitorði að margir forstjórar fyrirtækja í ríkiseigu sitja í ýmsum stjórnum fyrirtækja og fá þar tekjur utan þess sem þeir hafa af aðalstarfi sínu.“
Í næstu viku verður aðalafundur Íslandsbanka, þar sem kynntar verða breytingar á starfskjarastefnu bankans.
Eftir tilmæli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um að stjórnir ríkisbankanna gæti að hóflegum launum, hafa bæði Íslandsbanki og Landsbankinn lækkað laun bankastjóra sinna.
Eftir stendur að launahæsti bankastjórinn á Íslandi er sem fyrr Höskuldur Ólafsson hjá Arion banka, sem er sá banki af stóru viðskiptabönkunum þremur, hvers afkoma var verst í fyrra. Er hann með tæpar 75 milljónir á ári, eða rúmar sex milljónir á mánuði, með hlunnindum og bónusum.
Birna er áfram næstlaunahæst, fer úr 4,2 milljónum á mánuði í 3,85 milljónir á mánuði.
Lilja Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, er launalægst sem fyrr, fer úr 3,8 milljónum á mánuði í 3,3 milljónir, en Landsbankinn var með langbestu afkomuna á síðasta ári af stóru bönkunum þremur.
Sjá nánar: Sjáðu laun bankastjóranna í samhengi við afkomu bankanna – Fær Lilja þriðju launahækkunina ?