Líkt og greint var frá í gær úrskurðaði Persónuvernd um að Reykjavíkurborg hafi brotið persónuverndarlög er hún ákvað, í samvinnu við rannsakendur hjá Háskóla Íslands og Þjóðskrá, að senda ungum kjósendum smáskilaboð og bréf í aðdraganda sveitastjórnarkosninga í fyrra, með því markmiði að auka kjörsókn í þeim aldursflokki.
Sjá nánar: Borginni bannað að örva ungmenni með sms
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hefur frá upphafi verið afar gagnrýninn á þessa aðgerð Reykjavíkurborgar, líkt og Eyjan greindi frá í fyrra,
Um úrskurðinn nú segir hann:
„Hver eru viðbrögð borgarinnar nú? Borgin uppvís af því að brjóta persónuverndarlög á kjósendum í aðdraganda kosninga. Leynir svo upplýsingum fyrir Persónuvernd þegar spurt er. Öllum brögðum er beitt. Mörg lög brotin af borginni og áfram er sópað undir mottuna í ráðhúsinu. Stór er hrúgan.“
Borgin óskaði fyrst eftir heimild Persónuverndar til að senda skilaboðin, en fékk ekki. Þess í stað var Reykjavíkurborg í sjálfsvald sett hvort hún sendi skilaboðin, svo framarlega sem það væri gert í samræmi við persónuverndarlög. Ekki er leyfilegt að senda sms skilaboð í markaðsskyni samkvæmt fjarskiptalögum, en Persónuvernd mat það svo á sínum tíma að áminning Reykjavíkurborgar félli ekki undir skilgreininguna á markaðssetningu.
Eyþór sagði við Eyjuna í fyrra að sms sendingar borgarinnar væru ekkert annað en kosningaáróður Samfylkingarinnar. Dró hann þá ályktun út frá sms sendingum Reykjavíkurborgar, bæði til ungmenna í aðdraganda kosninga, sem og vegna áminningar borgarinnar í sms skilaboðum til íbúa valinna hverfa, um götuhreinsanir:
„Það er engin spurning að borgarstjóri notar borgina í áróðursskyni, til þess að koma sínum pólitísku skilaboðum áleiðis og hann seilist ansi langt í þeim efnum þykir mér,“
sagði Eyþór og taldi að tímasetning skilaboðanna um götuhreinsanir rétt fyrir kosningar enga tilviljun:
„Borgin er augljóslega notuð sem áróðurstæki í kosningabaráttu Samfylkingarinnar. Nú til þess að auglýsa um hreinsun gatna, merkilegt nokk, sem hefur heldur betur vantað upp á síðustu árin.“