Öskudagurinn er þann 6. mars næstkomandi og því ekki úr vegi að landsmenn hugi að grímubúningum að því tilefni.
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og Oddviti Miðflokksins í Reykjavík, Vigdís Hauksdóttir, hefur þegar ákveðið sinn grímubúning, sem sjá má hér að neðan.
Við myndina ritar Vigdís:
„Ég ætla að vera Síðari umr. á öskudaginn“
Vigdís gerir þarna grín að mótmælum Pírata í gær, en þau Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson,stilltu sér upp við hlið Bergþórs Ólasonar, Klausturþingmanns Miðflokksins, í ræðupúlti Alþingis í gær. Voru þögul mótmæli þeirra vegna veru Bergþórs á þingi, en þau báru húfur sem á stóð FO (Fokk ofbeldi) en Lilja Alfreðsdóttir hefur áður lýst Klaustursþingmönnunum sem ofbeldismönnum.
Fengu Píratarnir ávítur frá Bryndísi Haraldsdóttur, varaforseta Alþingis og hafa margir lýst furðu sinni á þessu uppátæki þeirra í þingsal.