Grímur Atlason, fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík, framkvæmdarstjóri Iceland Airwaves og frambjóðandi Vinstri grænna, er gagnrýninn á sinn fyrrverandi formann, Steingrím J. Sigfússon, þegar kemur að umræðunni á Bakka við Húsavík.
Eins og fram hefur komið fóru útgjöld ríkisins til atvinnuuppbyggingu vegna kísilversins á Bakka 96 prósent fram úr áætlunum og kostuðu skattgreiðendur alls um 4,2 milljarða króna. Þar af fóru um 3.5 milljarðar í jarðgöng og veg sem aðeins starfsmenn kísilversins munu koma til með að nota.
Grímur gagnrýnir orð Steingríms um „Bakkablúsinn“, en Steingrímur sagði:
„Það var alveg ljóst að ríkið myndi þurfa að leggja dálítið af mörkum og var álitið fjárfesting í þeim innviðum sem þyrfti að vera til staðar svo að atvinnuuppbygging gæti þróast þar.“
Grímur, sem sagði sig úr VG árið 2010, segir ýmislegt hægt að gera fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu, ef sveitarfélögin eru vopnuð með slíkri upphæð:
„Ég er með hugmynd. Látum öll svæðin hafa þessa upphæð (4,2 milljarða) og sjáum hvernig þeim tekst að „þróa atvinnuuppbyggingu“. Byrjum á Vestfjörðum. Það er hægt að gera ýmislegt annað en göng, sem enginn má nota, fyrir þessa upphæð. Treysti því að Vestfirðingar berjist fyrir þessari réttmætu kröfu.“
Framkvæmdin á Bakka fór alls 1,7 milljarð króna fram úr áætlunum, eða sem nemur 96 prósentum. Ekki liggur heldur fyrir hvort arðsemi hafnarinnar muni duga til að endurgreiða öll lán sem tekin voru vegna stækkunar hennar, samkvæmt svari Þórdísar Gylfadóttur, iðnaðarráðherra, við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, Miðflokki.