Hið nýja hverfi Vogabyggð hefur mikið verið í fréttum undanfarið vegna listaverks sem þar á að rísa, en það samanstendur af tveimur pálmatrjám í upphituðum glerhylkjum og kostnaðurinn um 140 milljónir króna.
Hin nýja byggð er reist á gömlum grunni, nánar tiltekið í Voga-hverfinu, en götuheitin Skútuvogur, Dugguvogur og Súðarvogur eru löngu orðin gamalgróin götuheiti í hugum margra.
Alltaf er fróðlegt að heyra ný gatnanöfn og í Vogabyggð munu vegfarendur geta keyrt um Skektuvog, Trilluvog, Arkarvog, Bátavog, Kugguvog og Drómundarvog. Þá munu torgin þar um fá nöfnin Skutulstorg, Vörputorg, Sökkutorg og Öngulstorg.
Engin skírskotun verður í pálmatrén, enda óvíst hvort þau rísi úr þessu.
Nafngiftin tengist auðheyranlega skipum líkt og eldri gatnaheitin, en hvort íbúar þar munu finna fyrir sjóriðu eða sjóveiki skal ósagt látið.
Þess má geta að Drómundur þýðir stórt herskip, en einnig má finna skírskotun í Drómundar og Önguls-nafnið úr Íslendingasögunum. Hálfbróðir Grettis Ásmundssonar var Þorsteinn drómundur, sem hefndi bróður síns og vó banamann hans, Þorbjörn Öngul í Miklagarði.