fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Minnihlutinn stormaði út: „Það er algert fundarofbeldi í borgarstjórn“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 19. febrúar 2019 22:46

Frá fundi borgarráðs fyrr í vetur. Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er algert fundarofbeldi í borgarstjórn. Meirihlutinn er kominn með breytingartillögu við okkar tillögu um að sveitarstjórnarráðuneytið skoði persónuverndarbrot borgarinnar fyrir síðustu kosningar. Vandinn við breytingatillöguna er sá að hún er bara allsendis óskyld þeirri tillögu sem hefur verið til umræðu í allan dag. Við gengum út úr salnum á meðan meirihlutinn greiddi sinni breytingatillögu atkvæði.“

Þetta segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, um fund borgarstjórnar í kvöld þar sem fjallað var um brot Reykjavíkurborgar á persónuverndarlögum, sem Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Miðflokksins, hefur kært til sýslumanns.

Tillaga Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins og Flokks fólksins um að senda  ákvarðanir og athafnir  Reykjavíkurborgar í tengslum við bréfa- og skilaboðasendingar til tiltekinna kjósendahópa í aðdraganda borgarstjórnarkosninga árið 2018 til frekari skoðunar í sveitarstjórnarráðuneytinu var ekki tekin til afgreiðslu. Tillagan var rædd í u.þ.b. fimm klukkustundir.

Gengu út af fundinum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði til breytingartillögu og mótmæltu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokks og Flokks fólksins þessu harðlega enda sögðu þeir tillöguna óskylda þeirri tillögu sem flokkarnir lögðu fram.

Ku meirihlutinn hafa reynt að fá minnihlutann til að hætta við sína tillögu og reyndu til dæmis að fá minnihlutann til að vera með á sinni breytingartillögu, sem kom ekki til greina af hans hálfu.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, sagði tillögu meirihlutans á engan hátt taka til þeirra atburða sem leiddu til lögbrota borgarinnar í borgarstjórnarkosningunum 2018.

Í mótmælaskyni gengu fulltrúar minnihlutans úr sal á meðan tillagan var tekin til afgreiðslu, samkvæmt tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

Varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins gekk hinsvegar ekki út og sat einnig hjá í atkvæðagreiðslu.

 

Tillaga minnihlutans hljóðaði svo:

Lagt er til að ákvörðunum og athöfnum Reykjavíkurborgar í tengslum við bréfa- og skilaboðasendingar til tiltekinna kjósendahópa í aðdraganda borgarstjórnarkosninga árið 2018 verði vísað til sveitarstjórnarráðuneytisins til frekari skoðunar.

Breytingartillaga meirihlutans var svohljóðandi:

Borgarstjórn samþykkir að farið verði í samstarf við sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem farið verður yfir reynslu af verkefnum undanfarinna kosninga til að efla kosningaþátttöku, m.a. í ljósi ákvörðunar Persónuverndar. Markmiðið með samstarfinu er að leggja línur til framtíðar í samráði við viðkomandi stofnanir, ráðuneyti og frjáls félagasamtök og gera tillögur um með hvaða hætti er fært að hvetja til þátttöku í kosningum.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks, upplýsti hins vegar á fundinum um að hann myndi sjálfur óska eftir að ráðuneytið myndi skoða málið frekar.

„Það er ekki nóg að læra af reynslunni, heldur þarf að fá utanaðkomandi aðila til að fara yfir þetta mál frá A til Ö. Eðlilegt er að sveitarstjórnarráðuneytið fari í málið. Reykjavíkurborg hefur orðið uppvís að því brjóta lög um persónuvernd og senda gildishlaðin og efnislega röng skilaboð til kjósenda. Borgin notaði aðstöðu sína til að hvetja handvalda hópa til að mæta á kjörstað. Hópa sem meirihlutinn taldi sér þóknanlega,”

sagði Eyþór og bætir við að skattfé borgarinnar hafi verið notað til verkefnisins.

„Borgarstjóri lýsti því yfir í aðdraganda kosninga að allt verkefnið hafi verið unnið eftir réttum leiðum og leikreglum. Annað hefur komið í ljós með úrskurði Persónuverndar frá því fyrr í mánuðinum þar sem staðfest er að borgin braut lög. Auk þess óskaði borgin eftir undanþágu frá banni á óumbeðnum SMS-sendingum. Þeirri undanþágu var hafnað. Þrátt fyrir bannið sendi borgin ungum kjósendum SMS á kjördag, beinlínis til að hafa áhrif á hegðun kjósenda. Þetta bendir til þess að brotavilji hafi verið til staðar. Og það nokkuð einbeittur.“

Í greinargerð með tillögunni segir að byggt sé á „heimild í XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum, sbr. 109., 110. og 112. gr. laganna. Samkvæmt 112. gr. laganna ákveður ráðuneytið n.tt. sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sem lýtur eftirliti þess skv. 109. gr. laganna.

Þá segir enn fremur í greinargerð að þetta frumkvæðiseftirlit ráðuneytisins sé mikilvægur „þáttar í eftirliti þess með stjórnsýslu sveitarfélaga. Mælst er til þess að kannað verði hvort ráðuneytið telji tilefni til þess að virkja það vegna framangreindra atvika.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Nú verður skákað í skjóli Trumps

Sigmundur Ernir skrifar: Nú verður skákað í skjóli Trumps
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland: „Við munum marka okkar spor í sandinn strax á þessu fyrsta ári“

Inga Sæland: „Við munum marka okkar spor í sandinn strax á þessu fyrsta ári“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Frægur sjónvarpsmaður spáir Trump Friðarverðlaunum Nóbels innan tveggja ára

Frægur sjónvarpsmaður spáir Trump Friðarverðlaunum Nóbels innan tveggja ára
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón stefnir ekki á formannsframboð – Ósáttur við Þórdísi Kolbrúnu og sakar hana um vanvirðingu

Jón stefnir ekki á formannsframboð – Ósáttur við Þórdísi Kolbrúnu og sakar hana um vanvirðingu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hreinsanir halda áfram hjá Sýn – Yfir­maður aug­lýsinga­mála stígur til hliðar

Hreinsanir halda áfram hjá Sýn – Yfir­maður aug­lýsinga­mála stígur til hliðar