„Stéttarfélögin fjögur sem leitt hafa yfirstandandi kjaraviðræður, VR, Efling, VLFA og VLFG, lýsa reiði og sárum vonbrigðum með þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði fram á fundi með forseta og varaforsetum ASÍ í dag, 19. febrúar.“
Þetta segir í sameiginlegri yfirlýsingu vegna fundarhalda í morgun, þar sem Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness rauk á dyr í fússi.
„Viðræður hafa staðið tæpt eftir að SA lögðu fram tilboð í síðustu viku sem leitt hefði til kaupmáttarrýrnunar fyrir stóra hópa launafólks. SA höfnuðu í kjölfarið sanngjörnu gagntilboði samflotsfélaganna,“
segir ennfremur.
Þá er nefnt að vonir hafi staðið til að með aðkomu stjórnvalda yrði glæðum hleypt í viðræðurnar:
„Ljóst er að tillögur stjórnvalda gera þær vonir að engu. Fundað verður í baklandi stéttarfélaganna á næstu sólarhringum og á fimmtudag funda formenn félaganna með SA hjá Ríkissáttasemjara.
Samflotsfélögin standa sameinuð og staðföst í kröfunni um að launafólk geti lifað af launum sínum og að stjórnvöld geri löngu tímabærar kerfisbreytingar í réttlætisátt.“
Að tilkynningunni standa:
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags
Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og
1. varaforseti ASÍ.
Sjá einnig: Vilhjálmur sótillur og rauk af sáttafundi:„Ég gat ekki setið þarna inni lengur“