Í svari bankaráðs Landsbankans við fyrirspurn Bankasýslu ríkisins um ástæðu hækkunar launa Landsbankastjórans Lilju B. Einarsdóttur, segir að hækkunin hafi komið til vegna þess að laun hennar hefðu dregist aftur úr launum fyrir sambærileg störf á árunum 2009 – 2017. Þau hefðu ekki verið samkeppnishæf og ekki í samræmi við starfskjarastefnu Landsbankans, sem segir að að laun helstu stjórnenda skuli vera samkeppnishæf í samanburði við stjórnendur annarra fjármálafyrirtækja, án þess þó að vera leiðandi.
Þá er tekið fram að bankaráðið telji laun Lilju vera hófsöm og varkárni hafi verið gætt þegar samið var um þau. Einnig er nefnt að leitað hafi verið til óháðra ráðgjafafyrirtækja um afmörkun á því hvað telja ætti samkeppnishæf laun og voru niðurstöðurnar þær að eðlileg laun væru 3,5 – 4,9 milljónir á mánuði. Umsamin laun í upphafi voru þó ákveðin 3.25 milljónir á mánuði, en síðar hækkuðu laun Lilju í tveimur skrefum um 82 prósent á innan við ári, sem varð til þess að mikil reiði braust út í samfélaginu, en Lilja er nú með 3,8 milljónir á mánuði, sem gerir hana að launalægsta bankastjóranum meðal þriggja stærstu viðskiptabankanna.
Bankaráð Íslandsbanka hefur einnig svarað fyrirspurn Bankasýslunnar og tekur í sama streng, laun Birnu Einarsdóttur bankastjóra, sem eru um 5,3 milljónir á mánuði, séu samkvæmt starfskjarastefnu bankans og miði að því að vera samkeppnishæf og sambærileg því sem þekkist hjá öðrum fjármálafyrirtækjum, án þess þó að vera leiðandi.
Þá hafi verið horft til reynslu, árangurs, viðskiptatengsla og hæfni við ákvörðun launa. Þá er vísað til árangurs bankans, en fjármálatímaritið Euromoney valdi Íslandsbanka sem besta bankann á Íslandi árið 2018, og er það í fimmta sinn sem hann hlýtur þá nafnbót.
Í því tilliti má taka fram að hagnaður Íslandsbanka dróst saman um rúma þrjá milljarða milli áranna 2017 og 2018.