Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hyggst vísa broti Reykjavíkurborgar á persónuverndarlögum í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga til dómsmálaráðuneytisins, til úrskurðar um lögmæti kosninganna. Þetta kemur fram á Facebook síðu Vigdísar.
„Ég hef ákveðið að vísa þeim lögbrotum sem framin voru í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna – að mati Persónuverndar til dómsmálaráðuneytisins til úrskurðar um lögmæti kosninganna.“
Sjá nánar: Reykjavíkurborg framdi lögbrot þegar hún sendi ungum kjósendum sms
Í samtali við Eyjuna sagði Vigdís að skýringar meirihlutans væru allar eftiráskýringar og eftir stæði vilji borgarinnar til að „garfast í gögnum“ sem væru persónurekjanleg og „einbeittur vilji“ stæði að baki því að koma málinu í gegn:
„Ég vil vita hvort þessar kosningar hafi verið lögmætar, vegna afskipta Reykjavíkurborgar af þeim. Sveitarfélögin bera ábyrgð á kosningunum og því er mjög óeðlilegt að Reykjavíkurborg sé að sýslast í þessum málum. Það er stjórnarskrárbundinn réttur allra að kjósa, en það er ekki skylda. Það felst afstaða í því að mæta ekki á kjörstað,“
sagði Vigdís og nefnir að persónuvernd hafi verið blekkt og aðvörunarljós blikkað í öllu ferlinu:
„Það er alveg sama hvað kom upp úr kjörkössunum, fyrir kosningar var verið að djöflast í ríkisstofnunum að fá þetta samþykkt, það komu neitanir og aðvörunarljós úr dómsmálaráðuneytinu, alls staðar var verið að vara við að þessi leið yrði farin. Persónuvernd var blekkt, á þann hátt að ekki voru sendar fullnægjandi upplýsingar.“
Vigdís vildi litlu svara um hvort hún teldi líklegt að kosningarnar yrðu dæmdar ólögmætar, það væri ekki hennar hlutverk.
Ljóst má þó vera að hallað gæti á meirihlutaflokkana ef kosið yrði á ný, í kjölfar þeirra hneykslismála sem upp hafa komið.