Hjónakornin Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram hyggjast stefna RÚV og tveimur starfsmönnum þess, þeim Helga Seljan og Sigmari Guðmundssyni, nema stofnunin dragi til baka „tilhæfulausar ásakanir, rangar fullyrðingar og meiði“ í þeirra garð. Fær útvarpsstjóri viku til að verða við kröfum þeirra. Þetta kemur fram í grein Jóns og Bryndísar í Morgunblaðinu í dag.
Hinar meintu röngu og tilhæfulausu fullyrðingar eiga að hafa fallið í viðtali við Aldísi Schram í Morgunútvarpi Rásar 2 og í grein sem þeir Sigmar og Helgi skrifuðu í Morgunblaðið í síðustu viku, sem hjónin nefnda „sjálfsvarnaræfingu“:
„Spyrja má, hvernig áheyrendur geti myndað sér fordómalausa skoðun á umfjöllunarefni, ef fréttamenn bjóða þeim bara upp á einhliða frásögn annars deiluaðila; velja það eitt til birtingar úr gögnum máls, sem hentar fyrirframgefinni niðurstöðu; stinga undir stól gögnum, sem sanna, að fréttamaður og/ eða viðmælandi fer með rangt mál; eða ef fréttamaður hunsar vottfestan framburð vitna?“
segir í grein þeirra hjóna í dag.
Þá leitast þau hjón við að útvarpsstjóri áminni þá starfsmenn sem áttu í hlut, fyrir gróf brot á siðareglum Ríkisútvarpsins og biðji hlustendur sína afsökunar á „óboðlegum“ vinnubrögðum fréttamannanna.
„En ef þér, hr. útvarpsstjóri, kjósið að bregðast ekki við þessari áskorun okkar, áskiljum við okkur allan rétt til að stefna yður, fyrir hönd Ríkisútvarpsins, og starfsmönnum yðar, sem og viðmælendum, fyrir rétt, til þess að fá meiðyrði, ranghermi og tilhæfulausar ásakanir, dæmdar dauðar og ómerkar. Og að Ríkisútvarpinu verði skylt að bæta þolendum þessarar ófrægingarherferðar það tjón, sem þau hafa orðið fyrir af völdum RÚV.“
Hjónin voru ósátt með eftirfarandi atriði og tala um sorpblaðamennsku
„Hér fer á eftir stutt upptalning á tilhæfulausum ásökunum, röngum fullyrðingum og grófum meiðyrðum, sem umræddir fréttamenn báru á borð fyrir hlustendur sína á Rás 2 í viðtalsþætti sínum við Aldísi Schram hinn 17. jan. sl.:
1) „Aldís sakaði föður sinn um kynferðisbrot 1992“. Ósatt. Sjá Mannlífsviðtal í feb. 1995
2) Hótun dóttur um að kæra föður „veldur því að hún er lokuð á geðdeild í mánuð“. Ósatt. Sjá lög og reglur um nauðungarvistun.
3) „Í hvert sinn sem kastaðist í kekki við föður“…„sigaði (hann) ávallt á hana lögreglu“. Ósatt. Sjá lögregluvottorð og reglur um nauðungarvistun.
4) „Sem utanríkisráðherra og sendiherra gat hann hringt í lögreglu, og þar með var ég handtekin…og færð í járnum upp á geðdeild.“ Ósatt. Sjá lögregluvottorð og reglur um nauðungarvistun.
5) Bréfsefni sendiráðs sýnir, að „það er því hafið yfir vafa, að hann reyndi að misnota aðstöðu sína…“ og „afskipti af Aldísi skráð sem aðstoð við erlent sendiráð“. Það getur enginn, hvorki sendiherra, né ráðherrar, né neinir aðrir, látið nauðungarvista aðra manneskju. Sjá reglur um nauðungarvistun. Lögregla ber ein ábyrgð á rangri skráningu í sína skýrslu. Algert aukaatriði.
6) Að JBH hafi „látið nauðungarvista hana í enn eitt skiptið“ eftir Washington-heimsókn 2002. Rangt. Sjá frásögn um atbeina félagsþjónustu og tilsjónarkonu vegna öryggis dóttur.
7) Hótun foreldra: „Ef ég tæki ekki til baka ásökun mína um kynferðisbrot JBH…myndu þau láta loka mig inni“. Ósatt. Sjá reglur um nauðungarvistun.
8) „Tveir lögreglumenn, ef ekki þrír, ryðjast inn…“ Sjá lögregluvottorð. JBH og BS aldrei leitað til lögreglu vegna Aldísar.
9) „Þegar barnið er tekið frá mér, verð ég ær“ – Skýring: Gert með atbeina umsjónarkonu og barnaverndarnefndar er barni komið í fóstur, á meðan móðir er vistuð á sjúkrastofnun.
10) „Nauðungarvistun fór heldur ekki fyrir dóm, eins og bar að gera“: Sjá viðtal við yfirlækni geðdeildar Landspítalans á mbl.is um starfsreglur um nauðungarvistun.
11) Sigmar: „Í hvert skipti sem þessi umræða kemur upp, ert þú nauðungarvistuð? – Aldís: Já, í sex skipti, ef ég man rétt.“ Ósatt. Sjá reglur um nauðungarvistun og lögregluvottorð.
12) „Vissi ekki af greiningu fyrr en 2013.“ Ósatt. Skilgreind geðfötluð að eigin frumkvæði hjá TR árum saman, vegna örorkubóta.
13) „Þá er ég bara sprautuð niður um leið eða látin taka lyf.“ – Sjá starfsreglur geðdeildar Landspítalans um framlengingu vistunar og lyfjatöku, sbr.viðtal við yfirlækni geðsviðs á mbl.is.
14) Að JBH hafi „framið sifjaspell, þegar hún (hver?) var fullorðin kona“. Óskiljanleg meiðyrði.
Tekið skal fram, að þessi listi yfir 14 tilhæfulausar ásakanir, ranghermi og meiðyrði, er ekki tæmandi.“
Við þetta er svo því að bæta, að þeir Sigmar og Helgi fullyrða í áðurnefndri grein í Morgunblaðinu, að í áratugi hafi Aldís „mátt þola þöggun og útskúfun út af meintum veikindum sínum“. Þetta er rangt, eins og nánast allt annað sem frá þeim hefur komið um þessi mál, sbr. viðtal ásamt birtingu lögreglukæru Aldísar í DV (27.- 29. september 2013) – sem að vísu var vísað frá sem ómarktækri – og forsíðuviðtal við DV (11.-13. október 2013).“
„P.s.Við undirritum þetta opna bréf bæði, þar sem fjölskylda okkar – ekki bara við sjálf – hefur beðið óbætanlegt tjón af völdum tilefnislausra ásakana, ranghermis og meiðyrða í umfjöllun fréttamanna RÚV.“