fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
Eyjan

Á slóðum Braga Kristjónssonar

Egill Helgason
Laugardaginn 7. desember 2019 22:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nei, þetta er ekki auglýsing fyrir Ara Gísla Bragason vin minn. Hann ætti það raunar alveg skilið. Faðir hans, Bragi Kristjónsson, stóð vaktina með mér í Kiljunni árum saman. Varð eftirlæti sjónvarpsáhorfenda. Sagði frábærar sögur með sínum einstaka hætti. Og þetta var ekki bara spaug, því í Rykkorninu með Braga flutu með margir fróðleiksmolar – ekki síst um kynslóð hans, skáld og rithöfunda sem komu fram á árum Kalda stríðsins. Þetta var heimildaskráning og ætti nýtast sagnariturum og bókmenntafræðingum.

Og Bragi vildi aldrei taka krónu fyrir. Hann lagði á sig talsverða vinnu til að safna efni í innslögin, var alltaf hlýr og kátur og tilkippilegur – en mátti ekki heyra minnst á greiðslu. Við gáfum honum stundum koníksflösku að launum – ég veit ekki hvort hann drakk koníakið eða þótti það yfirleitt gott. Ég fæ eiginlega aldrei nógsamlega þakkað Braga fyrir samferðina í Kiljunni.

Þá komum við aftur að Ara Gísla. Hann rekur nú Bókina – fornbókaverslunina sem faðir hans stofnaði á sínum tíma, hefur lengi verði á horninu á Klapparstíg og Hverfisgötu, en var eitt sinn í Hafnarstræti og svo á Vesturgötunni.

Þeir í Bókinni halda nú netuppboð á bókum, ég fór að gramsa aðeins í því hvað er á boðstólum og rakst til dæmis á eftirfarandi rit sem gætu orðið uppistaðan í prýðilegu safni ljóðabóka. Reyndar ímynda ég mér að ég heyri Braga tala um þessar bækur og höfunda þeirra. Hann þekkti þá auðvitað. Sumir voru nánir vinir hans og hann kann af þeim sögur, skemmtilegar, hugljúfar, neyðarlegar.

Hér er Aungull í tímann, hin stórmerka fyrsta ljóðabók Jóhanns Hjálmarssonar sem kom út 1956 þegar höfundurinn var aðeins 17 ára.

 

Vinur Jóhanns var Ari Jósefsson. Hann gaf út ljóðabókina Nei þegar hann var aðeins 21 árs. Hann féll útbyrðis á Gullfossi 1964 og drukknaði, var þá aðeins 24 ára og mörgum harmdauði.

 

Það blæðir úr morgunsárinu – einn besti titill á íslenskri bók. Hún er eftir Jónas Svafár, hér ásamt öðru ljóðakveri sem nefnist Geislavirk tungl. Nafn höfundar, jú, alþýðuskýringin var að hann hefði sofið í ár, en Jónas var stundum í slarki og sagt að hann hefði dottið í braggagrunn, vaknað skáld og tekið sér þetta nafn.

 

Óregla, eina tölublaðið sem kom út af menningartímariti í ritstjórn Steinars Sigurjónssonar. Þetta kom út í aðeins 200 eintökum og var þeim flestum fleygt sökum þess að ritstjórinn var óánægður með ritið. Hann skrifaði eins og fjandinn væri á hælunum á honum Steinar, en var ánægður með fæst. Óregla er dálítið viðeigandi titill.

 

Tindátarnir, ljóð eftir Stein Steinarr, myndir eftir Nínu Tryggvadóttur, útgáfuár 1943.

 

Kvæði, fyrsta ljóðabók Snorra Hjartarsonar. Skáldið var orðið 38 ára þegar bókin kom út. En tónninn fyrir stórkostlegt höfundarverk er gefinn í kvæðinu Í Úlfdölum.

Það gisti óður
minn eyðiskóg
er ófætt vor
bjó í kvistum,
með morgunsvala
á sólardyr
leið svefninn ylfrjór
og góður.

Vefur bókauppboðsins er hérna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðlaugur Þór og Bergþór karpa um það hvort Sjálfstæðisflokkur eða Miðflokkur hafi fyrstur komið með herta stefnu í útlendingamálum

Guðlaugur Þór og Bergþór karpa um það hvort Sjálfstæðisflokkur eða Miðflokkur hafi fyrstur komið með herta stefnu í útlendingamálum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Á hvaða plani er PLAN Samfylkingarinnar? Er ætlunin að leysa Vinstri græna af hólmi?

Orðið á götunni: Á hvaða plani er PLAN Samfylkingarinnar? Er ætlunin að leysa Vinstri græna af hólmi?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Lenya Rún snýr vörn í sókn eftir viðtalið við Stefán Einar – „Já ég skeit upp á fokking bak en ég er ógeðslega góð í að læra“

Lenya Rún snýr vörn í sókn eftir viðtalið við Stefán Einar – „Já ég skeit upp á fokking bak en ég er ógeðslega góð í að læra“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Mér finnst mjög skrítið að hægt sé að komast upp með annan eins munnsöfnuð“

„Mér finnst mjög skrítið að hægt sé að komast upp með annan eins munnsöfnuð“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Forseti Úkraínu bregst við sigri Trump

Forseti Úkraínu bregst við sigri Trump
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Donald Trump lýsir yfir sigri og hrósar Elon Musk sérstaklega – „Hann er frábær náungi“

Donald Trump lýsir yfir sigri og hrósar Elon Musk sérstaklega – „Hann er frábær náungi“