Ríkisútvarpið fær aldeilis á baukinn í leiðara Mannlífs í dag, sem skrifaður er af Hólmfríði Gísladóttur blaðamanni. Er sú ákvörðun RÚV að birta ekki lista umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra harðlega gagnrýnd og ýjað er að spillingu varðandi ráðninguna, þar sem Hólmfríður telur að niðurstaðan sé ákveðin fyrirfram. Yfirskrift leiðarans er Skammist ykkar!:
„Það leggur ólykt frá Efstaleiti. Fnyk af spillingu og fyrirfram ákveðinni niðurstöðu. Þegar hart er sótt að Ríkisútvarpinu úr mörgum áttum ákveður stjórn hins opinbera hlutafélags að stíga fram og færa andstæðingum „RÚV“ sprengjuvörpu í jólagjöf,“
segir Hólmfríður og hefur ákveðnar skoðanir á ráðleggingum Capacent, sem ber sagði að nafnleyndin myndi laða að betri umsækjendur:
„Þvílíkt endemis bull. Sá sem hefur hæfileika og metnað til að sækja um stöðu útvarpsstjóra er ekki í þeirri stöðu að þurfa að leyna því. Á þetta núna að verða boðleg afsökun til að veita ekki upplýsingar um umsækjendur um mikilvægar stöður? Hvarfaði ekki að neinum í pólitískri stjórn RÚV að vega og meta ávinninginn af því að halda upplýsingunum leyndum annars vegar og að fara í feluleik gagnvart þjóðinni hins vegar? Er enginn ímyndarráðgjafi starfandi hjá ráðgjafarfyrirtækinu?“
Hólmfríður bendir á að löngu ljóst hafi verið að staða útvarpsstjóra yrði auglýst, eða um leið og auglýst var eftir nýjum Þjóðleikhússtjóra, en Magnús Geir þáverandi útvarpsstjóri var þá þegar orðaður viðstöðu nýs Þjóðleikhússtjóra og því mörgum ljóst að staða útvarpsstjóra myndi senn losna.
„Ráðningarferlið í Þjóðleikhúsinu var sjónarspil. Og það sama virðist nú vera uppi á teningnum í Efstaleiti. Stjórn Ríkisútvarpsins vill fá að velja í stólinn bak við luktar dyr. Er nema von að menn spyrji hvort búið sé að taka ákvörðunina? Hvort málið snúist ekki um að fá hæfustu umsækjendurna heldur rétta umsækjandann? Þurftu menn e.t.v. viku til viðbótar til að sjá hvernig stemningin yrði í þjóðfélaginu, hvort við myndum ekki bara sætta okkur við að fá ekki að vita, hvort plottið myndi ganga upp?“
Hólmfríður segir það einnig dapurlegt að starfsmönnum RÚV sé boðið upp á slík vinnubrögð meðan þeir séu að gera góða hluti í rannsóknarblaðamennsku og þáttagerð. En að meðan geisi stríð utanhúss um vinnustað þeirra og þeir tilneyddir að verja slæman málsstað:
„…þá þurfa þeir að verja misgáfulegar ákvarðanir þeirra sem eru ofar í fæðukeðjunni. Verja tilvist sína sem, miðað við stöðuna á fjölmiðlamarkaði í dag, hefur e.t.v. aldrei verið mikilvægari. Skammastu þín Kári Jónasson og skammastu þín stjórn Ríkisútvarpsins. Skammist ykkar fyrir að standa ekki með starfsmönnum RÚV. Skammist ykkar fyrir að halda upplýsingum frá þjóðinni sem hún á rétt á. Skammist ykkar fyrir að fela ykkur á bak við þessa ljótu ohf-druslu sem pólitíkusarnir bjuggu til. Skammist ykkar.“