Fjárfestingafélagið Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar fjárfestis, mun fá 250 milljón dollara arðgreiðslu frá fjarskiptafélaginu WOM í Chile að sögn Viðskiptablaðsins. Eru það um 30 milljarðar króna.
Arðgreiðslan verður fjármögnuð með útgáfu skuldabréfs, en unnið er að sölunni. Erlendir fjölmiðlar segja hinsvegar að órói og mótmæli í Chile gætu fælt fjárfesta frá.
Novator hefur fjárfest í WOM fyrir 400 milljónir dollara, um 50 milljarða króna, en það keypti árið 2015 fjarskiptafélagið Nextel og breytti nafninu í WOM. Er markaðshlutdeild félagsins sögð hafa farið úr þremur prósentum í 18 prósent á þeim tíma þar ytra og sé með um 6.5 milljónir viðskiptavina.
Novator á í fjarskiptafélögunum Nova á Íslandi og Play í Póllandi, ásamt yfir tylft annarra félaga.
Björgólfur var í 1.116 sæti á lista Forbes yfir milljarðamæringa um mitt þetta ár, en mögulega hækkar hann eitthvað á listanum við þessar fréttir.