Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, taldi ástæðu til að fagna í gær þegar Alþingi samþykkti frumvarp hans um lækkun tekjuskatts. Hann tilkynnti um málið á Facebook:
„Flestir munu sjá lækkun um 70-120 þús kr. á ári. Mest kemur í hlut þess hóps sem hefur mánaðartekjur í kringum 320.000 kr.
Viðmiðum til breytinga á persónuafslætti milli ára var einnig breytt.“
Bjarni minnist á að Miðflokkurinn hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu málsins:
„Málið er eitt af stærstu málum kjörtímabilsins og einn helsti grundvöllur lífskjarasamninganna. Þó naut það ekki stuðnings allra flokka, Miðflokkurinn sat hjá. Ég sé ekki að afgreiðsla málsins hafi komist í fréttir í dag. En hvað sem því líður er ástæða til að fagna!“
sagði Bjarni sigri hrósandi.
Hann bætir síðan við í dag að margir velti fyrir sér áhrifum breytinganna og nefnir dæmi:
Nokkur dæmi: Tekjuskattur þess sem hefur 280.000 á mánuði lækkar um 69.792 á ári.
Hann greiðir eftir breytinguna engan tekjuskatt til ríkisins því persónuafslátur verður hærri en álagður tekjuskattur. Öll hans staðgreiðsla fer til sveitarfélagsins.
Skattbyrðin fer úr 14,5% í 12,4%.
Tekjuskattur þess sem hefur 370.000 á mánuði í tekjur lækkar um 124.620 á ári.
Skattbyrðin lækkar úr 20,5% í 19,5%.Sá sem er með 835.000 í tekjur sér tæplega 72.000 kr. skattalækkun á ári.
Skattbyrðin lækkkar úr 29,4% í 28,7%.(Hér er gert ráð fyrir 4% skattfrjálsum frádrátti í lífeyrissjóð.Tölur miða við árið 2021 þegar lækkun skatta er að fullu komin til framkvæmda.)