Sexmenningarnir í Samherjamálinu, sem hafa verið í varðhaldi í Namibíu, verða í varðhaldi fram í febrúar, eftir að dómari vísaði máli þeirra frá og hafnaði því að leysa þá úr haldi í morgun.
Frá þessu greinir Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, á Twitter. RÚV greinir einnig frá.
Sexmenningarnir höfðu farið fram á að dómari myndi meta lögmæti handtöku þeirra og komst hann að þeirri niðurstöðu að málið væri ekki það áríðandi að það fengi flýtimeðferð. Því er fyrirtaka í málinu áætluð þann 20. febrúar.
Meðal sexmenninganna eru fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og dómsmálaráðherra Namibíu, þeir Bernhard Esau og Sachy Shanghala. Hinir fjórir eru James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor, Tamson ‘Fitty’ Hatuikulipi, tengdasonur Esau sem og frændi James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius ‘Taxa’ Mwatelulo, sem tengist James Hatuikulipi fjölskylduböndum einnig.
NÝ FRÉTT: Ráðherrarnir og co, sem sæta ákæru fyrir að hafa þegið mútur í skiptum fyrir kvóta til Samherja í Namibíu, þurfa að sitja í varðhaldi þar til dæmt verður í máli þeirra í febrúar. Dómari hafnaði því að leysa þá úr haldi í morgun. https://t.co/CmxzxabB2v
— Helgi Seljan Jóhannsson (@helgiseljan) December 27, 2019