Um áramótin mun verð á mjólkurlítranum hækka úr 132 krónum í 135 krónur, samkvæmt ákvörðun verðlagsnefndar búvara.
Lágmarksverð á mjólk til bænda frá framleiðanda hækkar um 2.5 prósent, eða úr 90.48 krónum í 92.74 krónur og er hækkunin til neytenda sama hlutfallstala, samkvæmt Morgunblaðinu.
Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, segir hækkunina nokkuð undir almennri verðlagsþróun:
„Síðasta verðhækkun var 1. september 2018 og verðbólga síðan þá er 4%. Á þessum tæplega eina og hálfa ári sem síðan er liðið hafa gjaldaliðir í rekstri kúabænda hækkað um 5,9% og vinnslu- og dreifingarkostnaður um 5,2%. Hækkunin er því innan við helmingur þess sem þarf, svo fylgt sé verðlagsþróun,“
segir Ari.
Arnar Árnason á Hranastöðum í Eyjafirði og formaður Landssambands kúabænda, tekur í sama streng, en telur þó að breytingarnar komi helst til of seint:
„Þessi hækkun er skref í rétta átt, en við væntum að í framtíðinni verði fyrr brugðist við með verðbreytingum þegar forsendur eru fyrir þeim.“