fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Forstjóra Marel líkt við Messi og valinn viðskiptamaður ársins: „Er einfaldlega að spila í allt annarri deild“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 27. desember 2019 09:23

Árni Oddur Þórðarson. Mynd-/Marel

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, er viðskiptamaður ársins 2019 að mati dómnefndar Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins.

„Það er erfitt að horfa fram hjá vel heppnaðri skráningu Marels í kauphöllina í Amsterdam sem svo hefur laðað að mjög marga erlenda sjóði og aðra fjárfesta að félaginu. Félagið hefur fyrir vikið, ásamt góðum rekstri og sterkum efnahag, hækkað um rúm 70 prósent það sem af er ári,“

segir í rökstuðningi dómnefndar, en samhliða skráningunni í kauphöllina var ráðist í almennt hlutafjárútboð hvar hlutféð var aukið um 15%.

Notuð er fótboltalíking yfir valinu á Árna hjá einum álitsgjafa Fréttablaðsins:

„Við þurfum að velja Messi. Þó að það sé kannski ekki frumlegt kemur enginn annar til greina. Það sama gildir um Árna Odd sem er einfaldlega að spila í allt annarri deild en aðrir í íslensku viðskiptalífi.“

Nefnt er að frá skráningu félagsins í Kauphöllina á Íslandi árið 1992 hafi heildartekjur þess vaxið um 22 prósent á ári að meðaltali, en Árni tók við árið 2013. Umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir tóku þá við næstu tvö árin, sem skilaði sér í aukinni sölu og framlegð. Fyrirtækið stefnir að 12 prósenta árlegum vexti til 2026, sem byggður verður á öflugri markaðssókn, nýsköpun, vel ígrunduðu samstarfi og yfirtökum á fyrirtækjum, samkvæmt Fréttablaðinu.

Hver er þá Ronaldo?

Ekki kemur fram hvaða viðskiptamaður gæti verið ígildi Ronaldo, en aðrir sem nefndir voru í valinu voru Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, Sigurður Viðarson forstjóri TM, Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Stoða, Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion, Haukur Ingason, eigandi Garðsapóteks, Ólafur D. Torfason, aðaleigandi Íslandshótela, Stefanía Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Avo, Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis.

Þá fær fjárfestatengill Brims sérstaka umsögn einnig:

„Sjaldan hefur reynt jafn mikið á ættfræðikunnáttu manns í þessari stöðu og á sama tíma á reglum kauphallarinnar um fjárfestingatengsl.“

Ætla sér stóra hluti í Asíu

Erlent eignarhald Marels hefur margfaldast en fyrirtækið ætlar að fara mikinn í Asíu þrátt fyrir að samþjöppun sé fram undan, en endurskipuleggja á framleiðslu á svínakjöti þar ytra:

„Á margan hátt hefur árið þó verið erfitt þar sem alþjóðlegur óróleiki og viðskiptahindranir hafa sett sitt mark á matvælaiðnaðinn. Þannig hafa nýfjárfestingar í Evrópu og Bandaríkjunum verið lægri í ár en síðustu ár, en á móti hefur verið mun meiri sala inn á Asíumarkaði og þá einkum Kína. Í aðstæðum sem þessum kemur viðskiptamódel okkar sterkt inn með sterku sölu- og þjónustuneti um allan heim. Sem fyrr eru það litlu sigrarnir sem eiga sér stað dag hvern sem skipta öllu máli og má í þeim efnum nefna að þjónustutekjur á fyrstu níu mánuðum ársins nema 37 prósentum af tekjum félagsins,“

segir Árni.

Aðspurður hvað hver sé lykillinn að árangri í viðskiptum, segir Árni að ástríða fyrir viðfangsefninu og að geta hlustað á aðra samstarfsmenn og treyst þeim fyrir verkefnum:

„Það er nauðsynlegt að sýna hugrekki og taka af skarið. Ég segi oft við samstarfsfólk mitt að það séu þrjár leiðir til Rómar. Það versta sem hægt er að gera er að ræða of lengi um leiðirnar og jafnvel enda á því að velja einhvern milliveg eða fjórðu leiðina sem er illgreiðfær. Það má heldur ekki gleyma því að ástæðan fyrir því að við feðgarnir fjárfestum í Marel árið 2004 var að við sáum að starfsmenn fyrirtækisins voru að gera frábæra hluti og þörf væri fyrir lausnir fyrirtækisins en það þurfti að skerpa á áherslum í rekstrinum.“

Árni svarar því einnig hvort hann hafi fengið freistandi tilboð í Marel:

„Það hafa oft verið málaleitanir í þá veru en þær hafa aldrei farið það langt að við yrðum að bera tilboðið undir hluthafa. Ástæðan er sú að við töldum að virði félagsins væri mun meira. Þegar bréfin voru einungis skráð á Íslandi má segja að markaðsgengið endurspeglaði ekki raunvirðið. Ef það kæmi yfirtökutilboð núna, þegar Marel er skráð á virkan hlutabréfamarkað, yrðum við að líta svo á að verðmyndun bréfanna væri eins sanngjörn og kostur er og fara með það í opið ferli. Vaxtarmarkmið Marels eru metnaðarfull og því stendur hugur okkar til áframhaldandi virðissköpunar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK