Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur verið gagnrýnin á Reykjavíkurborg undanfarið vegna launakjara kvenna í umönnunarstörfum borgarinnar, en hún sagði borgarstjóra vera and-femínískan og hrokafullan meðlim valdstéttarinnar á dögunum.
Sólveig skrifar annan pistil í dag þar sem hún heldur áfram gagnrýni sinni á borgina og ljóstrar upp að Reykjavíkurborg hafi ætlað sér að láta leikskólastarfsmenn borga fyrir styttingu vinnuvikunnar með því að láta þá taka á sig launalækkun, í samningaviðræðunum við Eflingu:
„Og nú ætla ég að segja ykkur frétt, kannski má ég það ekki en ég ætla samt að gera það:
Í samningaaviðræðum Eflingar við borgina hefur verið sagt við okkur ítrekað að fyrrnefndir deildarstjórar, þessi stóri hópur mest-megnis kvenna, Eflingar-láglaunakvenna í leikskólunum, eigi sjálfar að borga að einhverju leiti fyrir þá styttingu sem verður á vinnuvikunni, eigi að taka á sig launalækkun. Já, þið eruð að lesa rétt: Á sama tíma og borgin hreykir sér af því að hafa innleitt jafnlaunavottun og á sama tíma og hún hefur unnið við skýrslugerð og úttektir og ég veit ekki hvað á að láta láglauna-konu-stjóranna sem að hafa tekið að sér að nota færnina sína til að reka leikskólana taka á sig launalækkun!”
segir Sólveig og bætir við:
„Þarna get ég ekki betur séð en að fólk sé á agalegum villigötum og ítreka því hugmyndina sem að ég setti fram hér að ofan: Vinnið og framkvæmið áætlun um réttlæti í Reykjavíkurborg. Hættið að gæla við stjóra og réttið út sáttahönd til Eflingar svo að við getum hjálpast að við að laga það fáránlega og kynjaða óréttlæti sem að umönnunarkerfið í borginni hvílir á, laga hinn sögulega glæp um að kven-vinnuaflið sé og eigi að vera á eilífum útsölumarkaði. Gerið áramótaheit og förum svo saman í að innleiða langþráð réttlæti til handa þeim sem að vinna hefðbundin kvennastörf.“
Hugmyndin sem Sólveig vísar til er að Reykjavíkurborg setji fram Aðgerðaráætlun í réttlætismálum fyrir árin 2020 – 2024 þar sem Aðgerðaráætlun borgarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2015 -2019 er að renna út, en Reykjavíkurborg fékk jafnlaunavottun á grundvelli hennar þar sem engin óútskýrður launamunur er sagður til staðar hjá borginni:
„Hún myndi snúast um að tryggja að engin sem vinnur fyrir borgina fái svo lág laun að henni takist ekki að tryggja eigin afkomu og afkvæma af þeim. Hún myndi snúast um að laga samstundis þá agalegu hryllingsvitleysa að starfsfólk á leikskólum er það lægst launaðasta á íslenskum vinnumarkaði. Hún myndi snúast um að uppræta þá skömm að konur á fimmtugs, sextugs og sjötugsaldri sem að hafa unnið alla æfi við hefðbundin kvennastörf hafi í ráðstöfunartekjur 280.000 krónur á mánuði. Hún myndi snúast um að hafa ekki fullvinnandi konur hjá borginni sem að þurfa að hlaupa í vinnu númer 2 að vinnudeginum loknum til að hafa í sig og á, til að geta borgað húsaleiguna á gróðavæddum húsnæðismarkaði,“
segir Sólveig meðal annars.