Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram tillögu til forseta Íslands á ríkisstjórnarfundi í morgun um að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, tæki við málum Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra, sem snerta Samherja og Útgerðarfélagi Akureyringa vegna fiskeldis og nytjastofna við Ísland. RÚV greinir frá.
Kristján Þór lýsti sig vanhæfan til að fjalla um mál Samherja er varðar umsókn þess um bráðabirgða rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar í Norðurþingi, en Matvælastofnun synjaði rekstrarleyfinu og lagði Samherji fram stjórnsýsluákæru vegna þess. Hefur Fiskistofa veitt Samherja skriflega áminningu á grundvelli laga um umgengni á nytjastofnun sjávar.
Kristján sagði sig einnig frá máli ÚA, en Fiskistofa ákvað að svipta félagið leyfi til veiða í atvinnuskyni í ákveðinn tíma, og hefur ÚA lagt fram stjórnsýsluákæru vegna þess.
Kristján Þór sagði í upphafi kjörtímabilsins að hann myndi segja sig frá öllum málum er varða Samherja, vegna tengsla hans við fyrirtækið og forstjóra þess og eiganda, Þorstein Má Baldvinsson. Það hefur hinsvegar ekki komið til þess, fyrr en nú, í kjölfar Samherjamálsins.