Staksteinahöfundur Morgunblaðsins skrifar um hegðun RÚV varðandi ráðningu nýs útvarpsstjóra, en stofnunin ætlar ekki að birta nöfn umsækjenda um stöðuna, eftir ráðleggingar Capacent, þó svo upplýsingalög kveði á um skyldu RÚV til þess en umsóknarfresturinn rennur út í dag.
„Ríkisfréttastofan virtist telja þetta alveg sjálfsagt og sá ekki ástæðu til að spyrja út í lögmæti þeirrar ákvörðunar að halda umsækjendum leyndum. Morgunblaðið gerði það hins vegar og birti svör sitjandi útvarpsstjóra um helgina. Þau voru ekki sannfærandi,“
segir Staksteinahöfundur, en sitjandi útvarpsstjóri er Margrét Magnúsdóttir, sem hefur einmitt vísað í upplýsingalög til þess að réttlæta þá ákvörðun að birta ekki nöfn umsækjenda.
„Þetta leynimakk og mögulegt lögbrot kemur þó ekkert á óvart og er aðeins framhald af hegðun stofnunarinnar, sem felur sig á bak við „ohf.“ þegar hentar og brýtur þau lög sem henni eru ekki þóknanleg. Stofnunin hefur til dæmis fjármagnað sig með útgáfu skráðra skuldabréfa og hefur notað það sem rök fyrir því að halda fjárhagsupplýsingum frá landsmönnum, eigendum sínum. Stofnunin hefur sýnt yfirgang á auglýsingamarkaði og stundað skattasniðgöngu með því að neita að stofna dótturfélag, eins og alræmt er orðið,“
segja Staksteinar með vísun í svarta skýrslu Ríkisendurskoðunar.
„Og nú neitar stofnunin að gefa upp nöfn umsækjenda með þeim rökum að fari hún að upplýsingalögum fái hún ekki hæfa umsækjendur. Hversu langt þarf Rúv. að ganga til að ganga fram af stjórnvöldum, þingi og þjóð?“