fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Sólveig Anna valtar yfir Dag B. Eggertsson: Fullyrðir að Reykjavíkurborg sé and-femínísk: „Djöfull mega þeir skammast sín“

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 18. desember 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það vera stórmerkilegt að fylgjast með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og félögum hans í meirihlutanum en hún segir þá sýna einstakan hroka sem aðeins meðlimir valdastéttarinnar geti sýnt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Facebook-færslu Sólveigar en þar fullyrðir hún að Reykjavíkurborg sé and-feminísk.

Sólveig segir það einnig vera stórmerkilegt að verða vitni að því að brotaviljinn sé algjör gagnvart ofur-arðrændu kven-vinnuafli borgarinnar. Hún segir áhugaleysið til að leiðrétta kjör þeirra kvenna sem gæta barnanna og annast gamlafólkið einnig vera algjört. „Undrandi og reið og sár,“ eru orðin sem Sólveig notar til að lýsa sjálfri sér þegar hún skrifar þetta.

„Það er svo langt langt síðan að ég fattaði að þau sem stýra þessari borg hafa ekki nokkurn einasta áhuga á að sýna samstöðu með konunum sem vinna vinnuna; nei, þau hafa bara áhuga á að nota leikskólana til að slá pólitískar keilur í aðdraganda kosninga þegar þau lofa ókeypis leikskólum eða ungbarnaleikskólum eða því að engar sumarlokanir verði og svo framvegis, endalaust og ítrekað. Svo innilega langt síðan að ég fattaði að narratívið um þátt leikskólanna í frelsum kvenna á Íslandi er byggt á stórkostlegum ósannindum sem eru byggð á stórkostlegri kvenfyrirlitningu; já, hér er þversögn arðránskerfisins eins mögnuð og eitruð og hægt er að hugsa sér. Frelsum allar konur með þvi að nota láglaunakonur sem ódýrasta vinnuaflið á íslenskum vinnumarkaði. Hér er þó aldeilis göfugt og gott verkefni sem hægt er að stæra sig af!“

„Ég fullyrði: Reykjavíkurborg er and-femínísk“

Hræsnin er hvergi meiri en þegar kemur að þeim skilyrðum sem konunum sem starfa í borginni er boðið upp á samkvæmt Sólveigu. „Ég er tilbúin til að fullyrða þetta hvar og hvenær sem er,“ segir hún. „Nú höfum við verið í samningaviðræðum við borgina mánuðum saman og í allan þennan tíma hefur ekki eitt einasta orð heyrst frá meirihlutanum um að þau bindi vonir við að nú verði þó hægt að hefjast handa við að lagfæra launakjör og vinnuaðstæður lægst launaðasta starfsfólks borgarinnar. Ekki eitt einasta orð frá öllum þessum yfirlýstu femínistum og kvennavinum um að nú sé þó aldeilis kominn tími til að hætta meðvirkninni með ofur arðráninu á þeim sem standa sína umönnunarplikt fyrir laun sem duga ekki til að tryggja sómasamlega tilveru! Ekki eitt orð.“

Sólveig talar um að borgarstjóri þakki björgunarsveitum fyrir fórnfýsi sem meðlimir sveitanna sýni og tekur hún auðvitað undir það. „En hver ætlar að þakka konunum sem gefið hafa alla starfsæfi sína í að gæta barna og annast gamalt fólk þessa samfélags fyrir þeirra fórnfýsi?“ spyr Sólveig. „Hver ætlar að þakka þessum stórkostlega jaðarsetta og ósýnilega hóp fyrir allt sem þær hafa gert og gera á hverjum einasta degi fyrir samfélagið? Hvaða hátt setti valdakarl ætlar að gera það? Við hljótum allar að bíða með öndina í hálsinum. Eða hvað; við erum búnar að vera að bíða eftir þakklæti samfélagsins í gegnum árhundruðin og það bólar ekkert á því ennþá. Kellingar þurfa víst hvorki laun né þakklæti, það er hin gamla saga og nýja.“

„Ég fullyrði: Reykjavíkurborg er and-femínísk,“ segir Sólveig þá en hún segir borgina taka þátt í að viðhalda af fullri hörku ógeðslegu samkrulli kapítalismans og feðraveldisins þegar vinnuafl lágt settra kvenna er hagnýtt til að knýja áfram umönnunarkerfið sem allt þjóðfélagskerfið treystir á. „Hún tekur þátt í að viðhalda ógeðslegu launamisrétti þegar hún borgar karlinum efst í stigveldinu milljónir og segir konunum neðst að sætta sig við molana af veisluborðinu. Hún tekur þátt í að viðhalda aldalangri og forhertri kúgun á konum sem eiga ekkert nema vinnuaflið sitt til að lifa af, ógeðslegri kúgun sem sagan mun sannarlega dæma.“

„Ekkert er verra en falskur femínismi. Ekkert er verra en að þykjast berjast fyrir sanngirni á meðan að þú leyfir óréttlætinu að blómstra undir þinni stjórn. Ekkert lýsir meiri hræsni en það að kalla sig baráttumann fyrir réttindum kvenna en vilja ekki einu sinni horfa með öðru auganu á þær konur sem lifa við skert kjör á þína ábyrgð.“

„Borgastjóri lætur sem við séum ekki til“

Sólveig segir kröfuna hafa verið að láglaunakonur borgarinnar haldi kjafti „á meðan að flottu strákarnir fá allt sviðsljósið“. Hún segir kröfuna hafa verið að láglaunakonurnar segi ekkert um tilveru sína „svo að flottu strákarnir geti fengið að halda áfram að segja frá því hvað þeirra tilvera er skemmtileg“. Þá segir hún kröfuna hafa verið að láglaunakonurnar skammist sín í hljóði fyrir ömurlegu launin sín „svo að flottu strákarnir þurfi nú allsekki að axla neina ábyrgð á þeim“.

„En hér eru fréttir, ef að þið hafið ekki verið búin að fatta það sjálf: Við erum hættar að halda kjafti. Við erum hættar að skammast okkar fyrir það sem við berum enga ábyrgð á. Við ætlum að skila skömminni þangað sem hún á heima. Og djöfull mega þeir skammast sín sem finnst í lagi að afhenda konunni á fimmtugsaldri sem vinnur við að gæta barnanna 280.000 krónur í ráðstöfunartekjur á meðan þeir sjálfir lifa í vellystingum praktuglega. Ekki gæti ég lifað með slíkri skömm.“

Hún botnar pistilinn með því að segja að ekkert lýsi meiri fyrirlitningu en að láta sem að fólk sé ekki til. „Borgastjóri lætur sem við séum ekki til. En við erum sannarlega til. Og á endanum er kannski ekkert annað hægt fyrir okkur en að sýna honum og öllum hinum hversu einstaklega raunverulegar við raunverulega erum og hversu einstaklega mikið vandamál það er þegar við stingum höndunum í vasann. Hversu einstaklega mikil áhrif það mun hafa á raunveruleika allra í borginni.“

 

https://www.facebook.com/solveig.a.jonsdottir/posts/10220842794677202

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“