Eyjafjörður er ekki láglaunasvæði. Þetta er niðurstaða könnunar sem Gallaup framkvæmdi fyrir Einingu- Iðju og AFL Starfsgreinafélag og greint er frá í tilkynningu.
Síðustu níu ár hefur Eining-Iðja í samstarfi við AFL Starfsgreinafélag fengið Gallup til að framkvæma viðamikla viðhorfs- og kjarakönnun á meðal félagsmanna sinna. Þessar kannanir eru sambærilegar könnunum sem nokkur önnur félög innan verkalýðshreyfingarinnar hafa látið gera, m.a. á Höfuðborgarsvæðinu, og sýna niðurstöður undanfarinnar ára að Eyjafjörður er ekki láglaunasvæði.
Í Fréttablaðinu í gær er fjallað um rannsókn Rannsóknar- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á haustfundi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar nýverið.
Þar kom m.a. fram að samkvæmt nánast öllum efnahagslegum mælikvörðum er gott ástand í öðru stærsta hagkerfi landsins sem Eyjafjarðarsvæðið og Þingeyjarsýslurnar eru og hefur svæðið þróast í jákvæða átt á flestum sviðum síðustu ár.
Haft var eftir Jóni Þorvaldi að rannsóknin staðfesti það sem fram hafi komið í rannsókn árið 2014 að Eyjafjörður sé ekki láglaunasvæði og að heimili og fyrirtæki búi við góða fjárhagsstöðu.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að þessu ummæli Jóns komi sér ekki á óvart því niðurstöður undanfarinnar ára í Gallup könnunum félagsins sýna að Eyjafjörður er ekki láglaunasvæði.
„Ég fagna því að háskólasamfélagið sé komið á sömu skoðun og við því oft höfum við reynt að halda þessu fram fyrir daufum eyrum þar til nú.“