Þorsteinn Víglundson, þingmaður Viðreisnar, gagnrýnir Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra harðlega vegna breytinga á fjármögnun félagslegs húsnæðis, sem er hluti af loforðapakka ríkisstjórnarinnar í lífskjarasamningunum. Ásmundur Einar fór mikinn á Alþingi í gær um málið og sagði stjórnarandstöðunni ekki treystandi til að ná lífskjarasamningunum í hús, þar sem hún gæti ekki unnið málið af sömu gæðum og hraða.
En Þorsteinn og aðrir í minnihlutanum telja að með breytingunum sé verið að setja uppbyggingu félagslegra íbúða fyrir öryrkja og þá sem standa utan vinnumarkaðar á bið, meðan ríkisstjórnin uppfylli skilmála sína gagnvart lífskjarasamningunum og vitnar hann í umsagnir Félagsbústaða, Reykjavíkurborgar og Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins um frumvarpið:
„Í umsögnunum þessara aðila kom fram að um 2000 manns biðu eftir húsnæði hjá þessum aðilum og fyrirséð væri að uppbygging yrði mun minni en þörf á næstu tveimur til þremur árum vegna þeirra breytinga sem fólust í frumvarpi félagsmálaráðherra. Það er vafalítið rétt hjá félagsmálaráðherra að stjórnarandstaðan hefði ekki verið tilbúin til að klára lífskjarasamninga með því að skilja þá tekjulægstu sem bíða félagslegra úrræða á húsnæðismarkaði eftir utangarðs,“
segir Þorsteinn og telur enga þörf hafa verið á því að skilja hina tekjulægstu eftir, þar sem hæglega hefði verið hægt að tryggja viðbótarfjármagn sem kæmi í veg fyrir að þeir sem verst stæðu þyrftu ekki að greiða fyrir skuldbindingar ríkisstjórnarinnar.
„Stundum mættu stjórnmálamenn sýna ögn meiri auðmýkt gagnvart ábyrgð sinni og völdum. Að hlusta á þá gagnrýni sem sett er fram og freista þess að bæta úr með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Þetta á ekki hvað síst við þegar þeir sem verst standa í samfélaginu eiga í hlut. Félagsmálaráðherra féll því miður á þessu prófi í gær og virtist ekki hafa fullan skilning á afleiðingum af þeim lagabreytingum sem hann lagði fyrir Alþingi nú fyrir jólin,“
segir Þorsteinn og kallar eftir meiri samúð og skilningi hjá Ásmundi:
„Það er sorglegt að sjá að félagsmálaráðherra hafi ekki meiri skilning eða samúð með stöðu þeirra sem verst standa á húsnæðismarkaði en þetta mál hans og yfirlýsingar hans vegna þess gefa til kynna.“